Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Borgin gæti tekið á móti nokkur hundruð

05.09.2015 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Reykjavíkurborg gæti tekið á móti nokkur hundruð flóttamönnum segir borgarstjóri. Hann vill þó bíða með að nefna ákveðna tölu þar til ráðherranefnd tilkynnir um þann fjölda sem boðið verði hingað. Borgarstjóri segir ekki megi líða margar vikur þangar til sú tala liggur fyrir.

Velferðarráðuneytið hefur haft samband við öll sveitarfélög og óska eftir því að þau sem hafi áhuga á að taka á móti flóttafólki hafi samband við ráðuneytið fyrir fimmtudaginn í næstu viku. Fjögur sveitarfélög hafa þegar samþykkt formlega að taka á móti flóttafólki, Akureyri, Reykjav ík, Hafnarfjörður og Súðavík. Þá hefur umtalsverður fjöldi sveitarfélaga óskað eftir nánari upplýsingum með óformlegum hætti frá ráðuneytinu. Auk þessara fjögurra hefur Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar lýst sig reiðubúna til að taka á móti flóttamönnum. Þá lýsti Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar vilja til að taka þátt í því verkefni er viðkemur komu flóttamanna frá Sýrlandi til Íslands.

Ráðherranefnd í bílstjórasætinu
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, hefur óskað eftir fundi með ráðherranefnd um málefni flóttamanna. Hann vonast til þess að sem fyrst verði af aðgerðum nefndarinnar. „Við erum búin að vera í sambandi við Rauða krossinn og erum að undirbúa okkur en við höfum ekki nefnt neina tölu og kannski er nú ráðherranefnd um málefni flóttamanna svolítið í bílstjórasætinu í því,“ segir Dagur. 

Hann getur ekki sagt til um hve miklum fjármunum borgin hyggist veita til málefnisins. Í viðmiðunarreglum flóttamanannefndar um aðstoð við flóttamenn sé kveðið á um heilbrigðisþjónustu og framhaldsskólanám sem er á hendi ríkisins. „en skólar eru á hendi sveitarfélaga og félagsþjónusta er á hendi sveitarfélaga,“ segir Dagur. En gæti borgin jafnvel tekið á móti nokkur hundruð flóttamönnum? „Já, ég held það,“ svarar Dagur. „En þetta er eitthvað sem við hljótum að ræða við ráðherranefndina og gera áætlanir í samræmi við hvað ríkið ætlar sér að taka á móti mörgum, hvað margir þeirra koma til Reykjavíkur og hverjir fara til annarra sveitarfélaga,“ segir borgarstjóri. 

Eigi ekki að líða margar vikur
Ráðherranefndin hefur ekki nefnt það, á móti hve mörgum flóttamönnum verður tekið. Dagur segir mikilvægt að ráðfæra sig við þá sem mesta þekkingu hafi á þessu sviði. „En neita því ekki að ég held að það eigi ekki að líða margar vikur áður en við sjáum stærðargráðuna a.m.k. í fyrsta áfanga og svo er hægt að taka frekari ákvarðanir þegar fram líður,“ segir Dagur.