Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Borgarlína og Miklabraut í stokk á oddinn

Dagur B. Eggertsson á fundi Samfylkingarinnar í Reykjavík þar sem kosningaáherslur voru kynntar
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Kosningabaráttan fyrir borgarstjórnarkosningarnar mun kristallast í afstöðunni til Borgarlínu, að mati oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavík. Flokkurinn kynnti áherslur sínar í dag.

 

Nú er liðlega mánuður til kosninga og flokkarnir hver af öðrum að kynna áherslur sínar. Samfylkingin í Reykjavík efndi til fundar í Gamla bíói í dag þar sem fram kom hjá Degi B. Eggertssyni oddvita flokksins að aðaláherslan yrði lögð á fjóra þætti.

„Í fyrsta lagi leggjum áherslu á Borgarlínu og Miklubraut í stokk og kynntum hugmyndir um hvernig mætti flýta þeim framkvæmdum,  nýta styrk borgarinnar í það. Í öðru lagi þá leggjum við áfram mjög mikla áherslu á húsnæðismálin, bæði leigumarkaðinn, búseturéttaríbúðir, en komum núna inn með hagkvæmar íbúðir með áherslu á ungt fólk og fyrstu kaupendur. Síðan kynnum við ítarlega áætlun um hvernig við klárum leikskólamálin og tryggjum að við getum tekið inn börn frá 12 til 18 mánaða aldri. Í fjórða lagi, jafnaðarmenn, leggjum áherslu á borg fyrir fólk, borg fyrir alla þar sem við komum inn með aðgerðir til þess að tryggja jafnt aðgengi barna að tómstundum, hreyfingu og virkni fyrir eldri borgara og áherslu á geðheilbrigðismál og aðgengi að sálfræðiþjónustu.“

Dagur telur að kosningabaráttan muni kristallast í afstöðu til  Borgarlínu, sem sér þyki undarlegt því Borgarlína sé líka góð fyrir þá sem keyra bíla og fái þar með meira pláss. Hugmyndir séu um að sveitarfélögin, Reykjavík í það minnsta, kæmi inn með fé í upphafi í félag um samgönguframkvæmdir til að flýta þeim og ríkið greiddi síðar sinn hlut. Formlegar viðræður séu ekki hafnar. Hann útilokar ekki einhvers konar bandalag að loknum kosningum.

„Meirihlutasamstarfið hefur gengið mjög vel, þetta er samhentur meirihluti og við erum stolt af honum. Við viljum gjarnan að það samstarf haldi áfram,“ segir Dagur B. Eggertsson.

 
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV