Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Borgarísjaki sést frá Ströndum

13.06.2018 - 15:58
Mynd með færslu
 Mynd: Jón G. Guðjónsson
Borgarísjaki sést frá Litlu-Ávík, 5-6 km austur af Sæluskeri og er líklega um 20 kílómetra frá landi. Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur fylgst með reki jakans undanfarna daga. Jón Guðbjörn Guðjónsson, veðurathugunarmaður í Litlu-Ávík í Árneshreppi, varð var við jakann í morgun en segir að skyggnið undanfarna daga hafi verið slæmt.

Ingibjörg Jónsdóttir, landfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, staðfestir að jakinn sé sá sem stofnunin hefur fylgst með frá 5.-6. júní, með hjálp mynda úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar og með myndum úr gervitunglum. Ingibjörg telur að borgarísinn sé allt að 10 metrar ofan sjávarmáls en gæti verið 50-70 metrar á þykkt í heildina. Jakinn er óvenjulegur í laginu, flatur að ofan. Ingibjörg telur ekki ólíklegt að hann haldi áfram að reka þar til að hann strandar, sem gæti orðið nokkuð nálægt landi ef hann er jafn flatur að neðan eins og hann er að ofan.

Mynd með færslu
 Mynd: Jarðvísindastofnun HÍ
Fylgst hefur verið með reki jakans undanfarna daga