Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Borgar sig að byggja

06.02.2014 - 22:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Byrjað var að byggja margfalt fleiri íbúðir í fyrra en árin þar á undan. Tekjulægstu fjölskyldurnar greiða um 45 prósent af ráðstöfunartekjum í húsnæðskostnað, samkvæmt greiningu Capacent.

Eftir hrun lækkaði raunvirði húsnæðis um 40 prósent. Á sama tíma rauk byggingakostnaður upp. Þetta og fleiri þættir gerðu það að verkum að árin 2009 til 2012 hófst bygging á aðeins 220 íbúðum á ári að meðaltali. En nú eru merki um að það sé farið að borga sig á ný að byggja íbúðir.

Á síðasta ári var byrjað að byggja 1.520 íbúðir samkvæmt greiningu Capacent á fasteignamarkaðnum. „Kaupverðið er alla vega komið upp fyrir byggingakostnað, sem er algjör forsenda fyrir því að þú byggir. Þú byggir ekki ef þú getur ekki selt á hærra verði,“ segir Þröstur Sigurðsson, ráðgjafi hjá Capacent.

Það er meiri eftirspurn en framboð af íbúðum sem eru minni en 120 fermetrar. Offramboð er hins vegar á íbúðum sem eru stærri en 150 fermetrar. Greiningadeild Arion banka kemst að sömu niðurstöðu. “Þegar við skoðum fasteignaverð í dag og byggingakostnað þá hefur fasteignaverð aðeins skriðið upp fyrir byggingakostnað á íbúðum í fjölbýli og því ætti að vera hvati til að hefja framkvæmdir í fjölbýli,“ segir Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka.

Áfram sé þó mjög dýrt að byggja sérbýli. Í greiningu Capacent kemur einnig fram að húsnæðiskostnaður leggst misþungt á fólk. Hér á landi fara að meðaltali 25 prósent af ráðstöfunartekjum fjölskyldna í húsnæðikostnað. Það er svipað og í Evrópu. Tekjulægsti hópurinn hér, þeir sem eru með 250 þúsund krónur og minna greiða hins vegar um 45 prósent af því sem þeir hafa milli handanna í húsnæðiskostnað