Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Borga sjálfir fyrir mokstur

14.01.2012 - 12:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslenskir fjallaleiðsögumenn greiða helming kostnaðar á móti Vegagerðinni við snjómokstur á veginum að Sólheimajökli. Markaðsstjóri félagsins telur að ríkið eigi sjálft að bera allan þennan kostnað - það sé ekki hlutverk einkahlutafélags.

Íslenskir fjallaleiðsögumenn fara daglega með erlenda ferðamenn á Sólheimajökul allan ársins hring. Um fjögurra kílómetra leið er af þjóðvegi eitt að jöklinum en vegurinn er ekki hluti af snjómokstursáætlun Vegagerðarinnar.

Rúmlega áttahundruð erlendir ferðamann gengu á Sólheimajökul með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum í desember og Arnar Már Ólafsson markaðsstjóri félagsins segir ekki verjandi annað en að halda þessum vegi opnum.

Og hann segir það geta skaðað orðspor ferðaþjónustunnar að ekki sé mokaður snjór af mikilvægum ferðamennaleiðum um leið og það dragi úr möguleikum þeirra sem vilja gera vel í ferðaþjónustu.