Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Borð fyrir báru ef á þarf að halda

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. - Mynd: RÚV / RÚV
Ríkisstjórnin sækir nú fram á sterkum grunni, sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld. Hann sagði að sitt sýndist hverjum um fjárlagafrumvarp næsta árs en að allir hljóti að vera sammála um að stöðunni hafi verið breytt til hins betra og að nú sé sótt fram á sterkum grunni.

„Fyrstu viðbrögð við fjárlagafrumvarpinu hafa verið allavega. Allt frá því að mönnum finnst ekki nóg að gert yfir í að fólki þyki ríkið taka allt of mikið til sín, að það sé of mikið gert. Hér væri auðvelt að benda á hversu ótrúlega mótsagnarkennd þessi viðbrögð eru en ég ætla að beina sjónum að öðru, og kannski dálítið óvæntu, því að það er nauðsynlegt að spyrja beggja spurninganna: Gerum við nóg? Hins vegar erum við mögulega að gera of mikið?“ sagði fjármálaráðherrann á Alþingi í kvöld.

Bjarni benti á að fyrir nokkru hafi öll lán er tengdust efnahagsáætlun Alþjóða gjaldeyrissjóðnum verið greidd upp. Á næsta ári verði lokið við uppgreiðslu lánu sem tengdust endurreisn fjármálakerfisins og að í fjárlagafrumvarpi næsta árs sé stefnt að því að ná skuldaviðmiði opinberra fjármála. Þá nefndi Bjarni að ríkissjóður hafi létt mjög á skuldum og lífeyrisskuldbindingum. „Þess utan er ríkissjóður rekinn með ágætum afgangi, eins og verið hefur undanfarin ár, og með því tryggt að visst borð sé fyrir báru ef á þarf að halda.“ 

Fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni að veður geti skjótt skipast í lofti og að engin trygging væri fyrir því að hagstæðustu spár um framvindu efnahagsmála gangi eftir. „Það væri óábyrgt að gera ráð fyrir því og við megum ekki stilla væntingar okkar miðað við bestu mögulegu sviðsmynd í þeim efnum.“

Hægt er að hlusta á ræðuna í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir