Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Bónusgreiðslur í andstöðu við hluthafastefnu

13.12.2017 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Lífeyrissjóður verzlunarmanna segir að fyrirhugaðar 550 milljóna króna bónusgreiðslur til stjórnenda og stjórnarmanna Klakka séu ekki í samræmi við hluthafastefnu sjóðsins. Formaður VR segir sér misboðið og kallar eftir aðgerðum stjórnvalda til að koma í veg fyrir slíkar bónusgreiðslur.

Hluthafafundur Klakka, eignarhaldsfélags sem á eignaleigufyrirtækið Lykil áður Lýsingu, samþykkti á mánudaginn tillögu stjórnar um kaupaukakerfi sem nær til þriggja starfsmanna og sex manna stjórnar félagsins. Fréttablaðið greinir frá málinu í dag.

Samkvæmt frétt blaðsins geta bónusgreiðslurnar orðið um 550 milljónir króna, vegna væntanlegrar sölu á Lykli og sölu annarra eigna félagsins á undanförnum árum, eða að jafnaði um sextíu milljónir á mann.

Segir að nærvera sjóðanna hefði engu breytt

Stærsti eigandi Klakka er bandaríski vogunarsjóðurinn Davidson Kempner, sem samtals á um 75 prósenta hlut. Íslenskir lífeyrissjóðir eiga um sex prósenta hlut, sem er meðal annars tilkominn eftir nauðasamninga við kröfuhafa þar sem skuldabréfum var breytt í hlutafé. Kristján B. Thorlacius hæstaréttarlögmaður nýtur stuðnings lífeyrissjóðanna í stjórn Klakka. Hann vildi ekki tjá sig um málið í samtali við fréttastofu. 

Lífeyrissjóður Verzlunarmanna á stærstan hlut lífeyrissjóðanna í Klakka, um eitt og hálft prósent. Í skriflegu svari sjóðsins segir að bandaríski vogunarsjóðurinn sé nær allsráðandi um málefni félagsins í ljósi eignarhlutsins. Samkvæmt frétt Fréttablaðsins var enginn fulltrúi íslensku lífeyrissjóðanna á hluthafafundi þar sem kaupaukakerfið var samþykkt. Í svari Lífeyrissjóðs verzlunarmanna segir að nærvera þeirra hefði engu breytt um vilja hluthafa með 75 prósenta eignahlut. Greiðslurnar séu ekki í samræmi við hluthafastefnu sjóðsins, sem leggur áherslu á að launakjör byggist fyrst og fremst á föstum launum og séu í samræmi við íslenskan veruleika.

Kallar eftir harkalegum viðbrögðum

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist hafa orðið orðlaus þegar hann frétti af fyrirhuguðum bónusgreiðslum. „Mér var svo gjörsamlega misboðið að horfa upp á þetta og lesa þessar fréttir,“ segir Ragnar í samtali við fréttastofu. „Sérstaklega í ljósi sögunnar, þar sem þessi fyrirtæki sem heyra undir Klakka áður Existu og Lykil áður Lýsingu og tengd félög, þá sorgarsögu sem þessi fyrirtæki og þann skaða sem þau hafa ollið íslensku samfélagi.“

Ragnar kallar eftir aðgerðum stjórnvalda, til að mynda lagasetningu, til að vinda ofan af slíkum bónusgreiðslum sem séu ekki í takt við það sem eðlilegt geti talist á almennum vinnumarkaði. „Ég kalla líka eftir harkalegri og meiri viðbrögðum frá lífeyrissjóðunum sem eiga hlut í máli í þessu tilfelli, ekki stóran hlut en í sögulegu samhengi, áttu ansi mikið undir með þeim fyrirtækjum sem fóru í nauðasamninga og heyra undir þennan vogunarsjóð,“ segir hann.

Áréttar að meirihlutaeigendur hafi átt frumkvæðið

Stjórn Klakka sendi fréttastofu eftirfarandi áréttingu vegna umfjöllunar um kaupaukagreiðslur til starfsmanna og stjórnar félagsins:

Það er skiljanlegt að stórar upphæðir eins og þær sem nefndar hafa verið sem mögulegar kaupaaukagreiðslur hjá Klakka vekji athygli og spurt sé hver taki ákvörðun um þær. Svarið við því er eigendur félagsins. Ríflega 80% hlutafjár Klakka er, beint og óbeint, í eigu erlendra aðila og er frumkvæðið að kaupaukagreiðslunum alfarið þeirra þó að stjórn hafi fjallað um útfærsluna og að beiðni þeirra lagt hana fyrir hluthafafund til samþykktar.

Þá skal minnt á að þær upphæðir sem fram hafa komið í fjölmiðlum eru ekki endanlegar heldur eru það hámarksgreiðslur vegna heildareigna Klakka sem koma aðeins til ef mjög hátt verð fæst fyrir Lykil. Greiðslurnar geta orðið mun lægri eða jafnvel engar. Sérstök áhersla er á að kynna söluferli Lykils fyrir erlendum kaupendum og eigendur Klakka telja mikilvægt að allir sem að sölunni komi hafi beina fjárhagslega hagsmuni af því að sem allra hæst verð fáist fyrir félagið, eigendum þess til hagsbóta.

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV