Bónus og Krónan ódýrari en Costco

13.06.2017 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Pétur Jónsson - RÚV
Einingarverð fjörutíu vörutegunda, sem valdar voru í verðkönnun RÚV, er samanlagt lægra í Bónus og Krónunni en í Costco. Vöruúrvalið í Costco er jafnframt minna því 9 vörutegundir af þeim 49 sem kanna átti voru ekki til þar. Stærð pakkninga gerir það jafnframt að verkum að greiða þurfti rúmar 56 þúsund krónur fyrir körfuna í Costco en um 20 þúsund í Krónunni og Bónus.

Valdar voru 49 vörutegundir með aðstoð ASÍ en 9 vörutegundir voru ekki til í Costco og því undanskildar í könnuninni. Farið var í verslanir fimmtudaginn 8. júní milli klukkan 14 og 18. Valin var ódýrasta varan, óháð gæðum, miðað við einingarverð vöru í hverjum vöruflokki, óháð vörumerki eða stærð pakkninga.

Borið er saman verð á hverja einingu, ýmist í kílóatali, lítratali eða stykkjatali. Fyrir eina einingu af hverri vörutegund á listanum hefði þurft að greiða 23.824 í Costco, sem var hæsta verðið, 21.404 í Bónus, sem var lægst, og 22.331 í Krónunni. Alls er því um 11% verðmunur á samanlögðu einingarverði í Bónus og Costco, lægsta og hæsta verðinu.

Oftast dýrast og oftast ódýrast í Costco

Einingarverð var oftast lægst og oftast hæst í Costco. Costco var ódýrast í 19 tilfellum, 17 vörutegundir voru ódýrastar í Bónus og 4 í Krónunni. Costco var dýrast í 14 tilfellum, 12 vörutegundir voru dýrastar í Bónus og 14 í Krónunni.

Vegna þess hve pakkningar eru mun stærri í Costco en í Krónunni og Bónus þurfti að kaupa inn fyrir 56.018 í Costco til að geta keypt vörurnar með lægsta einingarverðinu, fyrir 19.726 í Krónunni og 20.871 í Bónus. Þá ber að geta þess að einungis er hægt að versla í Costco ef framvísað er aðildarskírteini en ársgjaldið er 4.800 kr. fyrir einstaklinga og 3.800 kr. fyrir fyrirtæki.

Mesti verðmunurinn var á tepokum. Þeir voru ódýrastir í Costco, 2 kr. stykkið en 9 kr. í Krónunni. Í Bónus kostuðu þeir 3 kr. Munurinn er 350% á milli lægsta og hæsta verðsins. Smábrauð voru ríflega tvöfalt dýrari í Krónunni en Costco, kílóverðið af lauk var fjórfalt hærra í Costco en Bónus og lítrinn af sjampói í Costco nær tvöfalt dýrari en í Bónus.

Níu vörutegundir ekki til í Costco

Þær vörur sem voru á listanum en ekki voru til í Costco voru: rjómaostur, hrökkbrauð, pítubrauð, hunangsseríos, frosin ýsa, hveiti, kartöflur, uppþvottalögur og uppþvottavéladuft. Allar vörutegundir á listanum voru til í Bónus og Krónunni.

Engin regla virtist vera á því hvaða vörutegundir væru dýrastar í hvaða búð. Til dæmis voru epli ódýrust í Costco en appelsínur dýrastar þar. Sódavatn var dýrast í Costco en sykurlaust Pepsi ódýrast. Undantekningin á þessu eru dósamatur og kornvörur sem voru ódýrastar í Costco. En þar var ekki til hveiti og því var það undanskilið í könnuninni. Verðmunurinn var á bilinu 22-28%.

Hér að neðan má sjá verðkönnunina í heild sinni.