
Bónóbó-apar tjá sig á fjölbreyttan hátt
Bónóbó-apar á öllum aldri gefa frá sér há tíst við ýmsar aðstæður. Þessi háu hljóð voru til rannsóknar hjá vísindamönnum frá háskólunum í St. Andrews, Birmingham og Nauchatel í Sviss. Það hvernig bónóbó-apar beita þessum hljóðum í mismunandi aðstæðum gefur nýjar vísbendingar um þróunarsögulegan uppruna tungumálsins, en áður var talið að hljóðin sem stórapar á borð við simpansa og bónóbó-apa gæfu frá sér væru öll tengd ákveðnum aðstæðum eða tilfinningum - til dæmis ótta eða árásargirni.
Í áratugi hafa vísindamenn gert rannsóknir á tungumálagetu bónóbó-apa, sem er á margan hátt sérstök. Bónóbóapinn Kanzi er líklega frægasta dæmið, en hann lærði mikinn fjölda myndtákna undir leiðsögn vísindakonunnar Sue Savage Rumbaugh, og nokkrar bendingar úr bandaríska táknmálinu líka. Þótt bónóbó-aparnir hafi sýnt ótrúlega hugræna færni i í tilraunastofum hefur reynst afar erfitt að rannsaka þessa frændur okkar í kjörlendi sínu vegna borgarastyrjaldar og ótryggs ástands í Kongó, þar sem tegundin býr. Ýmsar uppgötvanir síðustu ára hafa þó náð að kvarna upp úr hugmyndum um algjöra sérstöðu mannsins meðal dýra.
Bónóbó-apar eru ásamt simpönsum nánustu frændur okkar úr röðum prímata - ættkvíslirnar greindust hvor frá annarri fyrir meira en fjórum milljónum ára.