Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Bóndi lofar að sækja 60 útigangskindur

03.03.2015 - 14:43
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Tæplega 60 kindur hafa hafst við án skjóls og fóðurs í Loðmundarfirði í vetur en þær sluppu frá Selsstöðum í Seyðisfirði. Matvælastofnun skoðar hvort gripið verði til aðgerða. Útigangsfé frá bænum hefur ítrekað fundist dautt í Loðmundarfirði.

Síðastliðið haust lét Matvælastofnun lóga 40 kindum sem komu ómerktar úr Loðmundarfirði en fjörðurinn er í eyði og höfðu sumar kindurnar gengið úti um veturinn. Þær voru frá Selsstöðum í Seyðisfirði og nú hefur sagan endurtekið sig því um helgina fundust tæplega 60 vanhirtar kindur í Loðmundarfirði.

Erfitt að halda kindum heima ef tíðin er góð

Eyjólfur Kristjánsson, bóndi á Selsstöðum, segir þær hafa sloppið eftir smölun í nóvember. „Þegar er góð tíð á haustin eins og er búið að vera undanfarið alltaf góð tíð á haustin fram yfir áramót. Þá er vont að eiga við þetta.“ Aðspurður um af hverju kindurnar sleppa alltaf aftur segir hann: „Þetta er svo gott land. Það er stutt að fara yfir í fjörðinn.“

Útiveran geri kindum gott

Féð á bænum fær að ganga laust við húsin og girðingar halda því ekki. Eyjólfur segir að til að fyrirbyggja að fé fari þyrfti að loka það inni í fjárhúsi strax og það kemur af fjalli og það vill hann síður. Féð verði hraustara af útiveru og sauðburður gangi betur.

Matvælastofnun og aðrir bændur óttast hinsvegar að verði ekkert að gert sé hætta á að féð sem sleppur drepist út hor eða að ær og lömb drepist þegar sauðburður hefst án þess að hægt sé að veita burðarhjálp.  

Óheppinn með veður

Fyrir tveimur vikum ruddi Eyjólfur sér leið í Loðmundarfjörð og náði tíu kindum sem hann segir að hafi verið í góðum holdum en svo fennti í slóðina og frysti. „Þetta fé verður bara sótt eins flótt og hægt er. Ef það hlánar aðeins verður hægt að reka þetta. Annars verður það bara sótt á bát.“

Matvælastofnun hefur beðið Borgarfjarðarhrepp um aðstoð við að handsama og flytja féð.  Á fundi sveitarstjórnar var í gær var ákveðið að aðstoða MAST við lausn málsins „enda þarfnast það skjótra viðbragða," segir í fundargerð sveitarstjórnar Borgarfjarðarhrepps.