Bólusetning ekki skilyrði fyrir leikskólavist

Mynd með færslu
 Mynd: EBU
Tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að gera bólusetningar að skilyrði fyrir innritun barna í leikskóla borgarinnar var felld á borgarráðsfundi í gær. Fjórir borgarráðsfulltrúar meirihlutans greiddu atkvæði gegn tillögunni en þrír borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði með henni.

Í bókun meirihlutans kemur fram að tillagan hafi verið felld á grundvelli umsagnar sóttvarnarlæknis um skyldubólusetningar.

Sóttvarnarlæknir efast um að slík skylda hækkaði hlutfall bólusettra að einhverju ráði. Hún gæti jafnvel haft þveröfug áhrif og aukið andstöðu almennings við bólusetningar líkt og hafi verið raunin hjá öðrum þjóðum. Hann leggur frekar til að bæta samstarf milli leikskólanna og heilsugæslunnar með viðveru hjúkrunarfræðings á leikskólum. 

Sjálfstæðisflokkurinn lagði þá fram nýja tillögu strax í kjölfarið um að leita eftir samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og að viðvera hjúkrunarfræðings á leikskólum yrði tryggð líkt og tíðkist í grunnskólum landsins. Þetta yrði gert með það að markmiði að auka þátttöku barna í almennum bólusetningum. Afgreiðslu tillögunnar var frestað.

Fanney Hólmfríður Kristjánsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi