Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bolsonaro: Gögn um skógareyðingu í Amazon röng

20.07.2019 - 00:34
epa07499005 The President of Brazil Jair Bolsonaro (C) speaks during a ceremony to evaluate the first 100 days of his government, at the Palacio do Planalto, seat of the executive power, in Brasilia, Brazil, 11 April 2019.  EPA-EFE/JOEDSON ALVES
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. Mynd: EPA-EFE - EFE
Jair Bolsonaro forseti Brasilíu segir gögn Inpe, geimrannsóknarstofnunar landsins, sem benda til þess að skógareyðing í Amazon-frumskóginum hafi aukist frá embættistöku hans í engu samræmi við raunveruleikann og sakar hana um lygar.

Fram kemur í gögnunum að frá því að Bolsonaro tók við embætti hefur skógareyðing aukist hratt en hann hefur talað fyrir aukinni nýtingu skógarins á kostnað landverndar. Stofnunin segir gögnin afar áreiðanleg og að þúsund ferkílómetrar skógar hafi verið höggnir á fyrstu fimmtán dögum þessa mánaðar, er það 68% aukning frá því sem var allan júlímánuð í fyrra.

Bolsonaro lýsti óánægju sinni með niðurstöðurnar á fundi með blaðamönnum í gær og sagðist vilja funda með forstöðumanni geimrannsóknarstofnunarinnar sem fyrst.

Amazon-frumskógurinn, sá stærsti í heimi, gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki við að binda kolefni og hægja þar með á loftslagsbreytingum og hækkandi hitastigi á jörðinni allri.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV