Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bolsonaro bannar bankaauglýsingu

27.04.2019 - 01:15
epa07527857 Brazilian President Jair Bolsonaro (L), during the signing of a decree that ends with the so-called 'daylight savings hours', in Brasilia, Brazil, 25 April 2019. The so-called 'daylight savings hours' supposed to advance one hour clocks for about three months a year, in order to minimize energy consumption.  EPA-EFE/JOEDSON ALVES
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Brasilískur banki ákvað að hætta birtingu auglýsinga að kröfu forseta landsins, Jair Bolsonaro. Auglýsingarnar vörpuðu ljósi á fjölbreytileika Brasilíu, og átti að laða unga viðskiptavini að bankanum. Hörundsdökkir Brasilíumenn voru meðal leikara í auglýsingunni auk transfólks. Auglýsingin var fyrst birt í byrjun apríl en tekin af dagskrá 14. apríl. Markaðsstjóri bankans var rekinn eftir þetta. 

Rube Novaes, bankastjóri Banco de Brasil, segist hafa verið sammála forsetanum um að taka auglýsinguna úr birtingu, án þess að greina frá því hvers vegna honum þætti það eðlilegt.

Að sögn AFP fréttastofunnar sýndi auglýsingin fjölbreytt mannlíf Brasilíu. Alls konar fólk, ljóst og dökkt, sumir með húðflúr og litríkt hár, var sýnt njóta lífsins og taka af sér sjálfur. Undir hljómaði lífleg tónlist og rödd greindi frá því hversu einfalt væri að opna bankareikning á netinu.

Samkvæmt brasilíska dagblaðinu O Globo hafði Bolsonaro beint samband við bankastjórann eftir að hafa séð auglýsinguna. Málið hefur vakið talsverða reiði í Brasilíu. Maria do Rosario, þingkona Verkamannaflokksins, segir ekkert rými fyrir fjölbreytileika hjá ríkisstjórninni. Bolsonaro hagi sér eins og lítill einræðisherra, hefur AFP eftir henni.

Þetta var ekki í fyrsta sinn í vikunni sem Bolsonaro sætti gagnrýni vegna andstöðu sína við fjölbreytileika. Þegar hann var spurður út í það hvort hann væri hræddur um að opinber hatursfull ummæli hans í garð samkynhneigðra gætu haft slæm áhrif á erlenda fjárfestingu svaraði hann því til að hann vildi ekki að Brasilíu yrði að hýrri ferðamannaparadís.

Eins og með svo margt annað hverfa hlutirnir ekki endilega þegar þeir eru bannaðir. Auglýsinguna er hægt að finna á Youtube, og má sjá hér að neðan.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV