Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bólivíuforseti rak alla ráðherra sína

27.01.2020 - 04:57
epa08153561 Interim President of Bolivia Jeanine Anez (C) waves from a balcony of the Government's Palace in La Paz, Bolivia, 22 January 2020. Anez said that Bolivia got rid of a 'fate like Venezuela's' by putting an end to the 'violence' and 'corruption' from the Evo Morales era.  EPA-EFE/MARTIN ALIPAZ
Jeanine Áñez, bráðabirgðaforseti Bólivíu, veifar mannfjöldanum af svölum stjórnarráðsins í síðustu viku. Mynd: EPA-EFE - EFE
Frambjóðandi Sósíalista, flokks Evos Moralesar, fyrrverandi Bólivíuforseta, hefur langmestan stuðning kjósenda samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í gær, rétt rúmum þremur mánuðum fyrir boðaðar forsetakosningar. Niðurstöðurnar birtust tveimur dögum eftir að bráðabirgðaforsetinn Jeanine Áñez tilkynnti að hún hygðist bjóða sig fram, þvert á fyrri yfirlýsingar. Hún rak alla ráðherra í ríkisstjórninni í gærkvöld, eftir harða gagnrýni frá einum þeirra vegna þessarar ákvörðunar hennar.

26 prósent aðspurðra segjast ætla að Luis Arce, frambjóðandi Sósíalista og fyrrverandi efnahagsmálaráðherra landsins, í kosningunum í vor. Carlos Mesa, frambjóðandi Borgaraflokksins og fyrrverandi forseti deilir öðru sætinu með hægrimanninum Fernando Camacho. Báðir hafa stuðning 17 prósenta kjósenda. Mesa lenti í öðru sæti á eftir Morales í kosningunum 2019, sem ógiltar voru eftir að upp kom rökstuddur grunur um kosningasvik.

Áñez er í fjórða sæti samkvæmt könnuninni, með 12 prósenta fylgi. Rétt er að taka fram að könnunin var gerð 9. - 13. janúar, áður en Sósíalistar tilkynntu að Arce yrði frambjóðandi þeirra, og áður en Áñez staðfesti að hún myndi bjóða sig fram.

Fer í framboð og rekur alla ráðherra

Áñez hefur ítrekað lýst því yfir að hún ætlaði ekki að bjóða sig fram í kosningunum í vor og tilkynning hennar um hið gagnstæða á föstudag vakti blendin viðbrögð meðal samherja hennar og ráðherra í ríkisstjórninni. Það var að áeggjan tveggja ráðherra sem hún ákvað að taka slaginn, en Roxana Lizarraga, ráðherra samskiptamála, gagnrýndi hana harðlega fyrir að ganga á bak orða sinna með þessum hætti og sagði af sér ráðherraembætti í gær.

Nokkrum klukkustundum síðar tilkynnti forsetaskrifstofan svo að Áñez hefði farið þess á leit við alla ráðherra sína að þeir segðu af sér embætti fyrir lokasprettinn í „undirbúningi hinna lýðræðislegu valdaskipta.“ Þar segir enn fremur að það sé „alvanalegt“ að gera breytingar „á starfsliði framkvæmdavaldsins“ í aðdraganda kosninga. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV