Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bólivískur sendiherra í BNA eftir 11 ára hlé

27.11.2019 - 01:39
epa08022691 The interim president of Bolivia, Jeanine Añez (L), signs a document next to the president of Senate Monica Eva Copa (R), at the Government Palace in La Paz, Bolivia, 24 November 2019. Añez signed an emergency law to allow elections to be called as soon as possible.  EPA-EFE/RODRIGO SURA
Bráðabirgðaforseti Bólivíu, Jeanine Añez, undirritar neyðarlög sem heimila að boðað verði til nýrra kosninga í landinu við fyrsta tækifæri. Henni á vinstri hönd (hægra megin á myndinni) situr Monica Eva Copa, forseti öldungadeildar Bólivíuþings.  Mynd: EPA-EFE - EFE
Stjórnvöld í Bólivíu skipuðu í gær Walter Oscar Serrate Cuellar sem sendiherra landsins í Bandaríkjunum. Sætir þetta nokkrum tíðindum því Bólivía hefur ekki verið með sendiherra í Washington um ellefu ára skeið. Skipan Cuellars er lýsandi dæmi um viðsnúninginn sem orðið hefur á utanríkisstefnu landsins eftir að Evo Morales hrökklaðist úr embætti og úr landi á dögunum. Cuellar hefur áður gegnt stöðu sendiherra Bólivíu í Bandaríkjunum. Skipan hans nú þarf blessun þingsins til að öðlast gildi.

Bráðabirgðaríkisstjórn Bólivíu, undir forsæti hinnar hægrisinnuðu öldungadeildarþingkonu Jeanine Añez, gerði það að sínu fyrsta verki á sviði utanríkismála, að viðurkenna Juan Guaidó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Venesúela, sem réttmætan forseta landsins. Þau Guaidó og Anez eiga það sameiginlegt að hafa sjálf lýst sig bráðabirgðaforseta, hvort í sínu landi.

Þá sleit Bólivíustjórn öll tengsl við stjórn Nicolasar Maduros, forseta Venesúela, og líka við stjórnvöld á Kúbu. Þessi tvö ríki voru á meðal mikilvægustu bandalagsþjóða Bólivíu á 14 ára valdatíð sósíalistans Moralesar. Añez er hallari undir Bandaríkin, sem þegar hafa lýst fullum stuðningi við valdatöku hennar.