Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Boko Haram myrti átta og rændi tveimur

01.09.2019 - 06:13
Mynd með færslu
Leiðtogi Boko Haram og nokkrir liðsmanna hans. Mynd: Boko Haram - Youtube
Vígamenn úr röðum Boko Haram myrtu átta og höfðu tvo á brott með sér í árásum á bændur og þorp í norðausturhluta Nígeríu í gær. AFP fréttastofan hefur þetta eftir íbúum og vopnuðum sveitum í nágrenninu. Vígamennirnir réðust inn í þorpið Balumri á föstudagskvöld. Það er um 15 kílómetrum frá borginni Maiduguri. Þar drápu þeir fjóra karla og rændu tveimur. Í gær réðust þeir svo á bændur við vinnu á akri í útjaðri Maiduguri.

Vargöld Boko Haram í norðausturhluta Nígeríu hefur staðið yfir í um áratug. Vígamenn hreyfingarinnar hafa myrt um 35 þúsund manns. Um tvær milljónir manna hafa yfirgefið heimili sín til að flýja ofbeldi þeirra. Flestar árásir vígamanna eru gerðar í og við Maiduguri. Nígeríski herinn fullyrti fyrir nokkru að búið væri að ráða niðurlögum Boko Haram.