Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Bóklestur barna á uppleið

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin

Bóklestur barna á uppleið

19.10.2017 - 11:21

Höfundar

„Við þurfum að gefa út miklu meira af lesefni fyrir börn,“segir Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur og fræðimaður, í tilefni af áhyggjum sem margir hafa af dvínandi lestri barna og versnandi stöðu íslenskunnar og bókarinnar. Hún bendir á að nú séu á lofti vísbendingar um að breyting sé að verða á viðhorfum, t.d. meðal stjórnmálafólks. Athyglin þurfi ekki síst að beinast að börnum og efla verði skólabókasöfnin.

„Það er að koma út mikið af spennandi barnabókum á íslensku. Við erum með nýjar mælingar sem sýna að lestraráhuginn er á uppleið aftur. Mun færri en áður hafna bókum algjörlega. Þarna er mjög viðkvæmur hópur krakka sem eru að byrja að verða áhugasamir lesendur. Það er svo mikilvægt að þau fái lesefni, að akkúrat núna fyllum við pakkana af bókum og eflum skólabókasöfnin – af því að það fá ekki öll börn bækur heima. – Þau þurfa að fá þær í skólanum.“ Niðurskurður á framlögum til skólabókasafna hefur skert möguleika barna til að nálgast bækur og rýrt til muna kjör rithöfunda sem  skrifa fyrir börn. En Brynhildur efast ekki um að barnabókin sé á uppleið aftur. „Við erum búin að ná botninum og erum að spyrna frá. – Við erum að komast upp úr þessari neikvæðni að festast í að skamma börnin fyrir að lesa ekki. Við eigum miklu frekar að hrósa þeim fyrir hvað þau eru þó dugleg að lesa. Með allar þessar spjaldtölvur og þessa tímaþjófa í kringum sig eru samt 70% krakka áhugasamir um lestur. Af hverju erum við ekki að hrósa unga fólkinu fyrir það að vera þó svona dugleg? Og halda að þeim spennandi efni: Taktu nú þessa næst – og hvað með þessa? Sjáðu hvað er að koma út margt spennandi!“

Brynhildur Þórarinsdóttir hefur skrifað skáldsögur fyrir börn og endursagnir úr Íslendingasögum, smásögur og greinar. Hún er menntaður bókmenntafræðingur, sem rannsakað hefur sérstaklega barnabækur, kennt íslensku við Háskólann á Akureyri og leitt Barnabókasetur – rannsóknasetur um barnabókmenntir og lestur barna. Brynhildur hefur sent frá sér nýja barnabók, „Gulbrandur snati og nammisjúku njósnararnir.“ Nútímaforeldrar eru í kappi við að afla fjár og frama, t.d. að sækja skjótfenginn gróða af ferðafólki. Eftir sitja börnin, sem þurfa að hafa ofan af fyrir sér – og ævintýrin bíða á afskekktum stað.

Á Morgunvaktinni ræddi Brynhildur þessa list – að fanga athygli barna með góðri sögu. Viðtalið hófst raunar á Írlandi, þar sem Brynhildur dvelur um þessar mundir og skrifar, nánar tiltekið í Cork. Írsk menning er ríkuleg og áhugaverð – og mikil söguleg tengsl milli Írlands og Íslands. Jafnvel óveðrið í Cork á dögunum var líkt því sem hún þekkir að heiman. Írsk tunga hefur vikið fyrir enskunni en Írar reyna samt að viðhalda henni. Því miður kemur ekki mikið út af bókum á írsku, hún er ekki eins lifandi og íslenskan er – enn.