Bókin hefði ekki orðið til án listamannalauna

Mynd: RÚV / RÚV

Bókin hefði ekki orðið til án listamannalauna

14.10.2019 - 15:25

Höfundar

„Það var sagt að ég hefði verið í stjórn Rithöfundasambandsins og úthlutað sjálfum mér fjörutíu milljónum á tíu árum en skrifað aðeins eina bók,“ segir Andri Snær um óvægna umræðu um úthlutun til hans úr launasjóði listamanna fyrir þremur árum. „Hvernig gat ég skrifað eina bók á tíu árum ef ég fékk bókmenntaverðlaun tvisvar?“

Um tímann og vatnið fjallar samnefnd bók eftir Andra Snæ Magnason rithöfund, hugsuð og fyrrum forsetaframbjóðanda. Þar tvinnar hann saman persónulegar sögur frá fjölskyldu sinni, eigin reynslu og ýmsar hugleiðingar um þróun lífs á jörðinni, mannlegan breyskleika, loftslagsbreytingar og bráðnun jökla. „Það er mikill vandi að fjalla um eitthvað svona stórt og ég held ég hafi valið erfiðustu leiðina. Það tekur margar atlögur. Svona bók rennur ekki út úr mér,“ segir Andri Snær í viðtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í þættinum Gestaboði á Rás 1.

Að setja hjartað í jökulinn

Fyrir tveimur árum var bókin enn haugur af slitrum og brotum sem Andri Snær sankaði að sér yfir langt tímabil. Í henni má lesa sögur úr lífi ættmenna hans, hugleiðingar frá honum sjálfum, goðsögur og niðurstöður rannsókna um loftslagsmál í ljóðrænni framsetningu. Það tók langan tíma að finna réttu leiðina til að púsla þessum ólíku brotum saman en Andri Snær vissi þó að hann yrði að gera þetta, að þarna leyndist sú heild sem bókin að lokum varð að. „Fólk var að spyrja mig, „ertu viss um að þetta séu ekki fjórar ólíkar bækur sem þú ert að skrifa?“ Ég sagði nei, ég trúi að það sé hægt að flétta þessu saman.“

„Loftslagsbreytingar eru ekki skemmtilegt viðfangsefni til að lesa um í sjálfu sér en við verðum að lesa um þetta til að skilja það,“ segir Andri. Hann hitti fyrir loftslagsfræðing sem hann ræddi málið við og sá spurði hvers vegna hann væri að tala bara um fossa og flúðir en ekki stærsta mál í heimi, loftslagsvána. „Ég spurði: „Er það ekki ykkar að tala um það?“ En hann sagði: „Við erum ekki að fara að blanda þessu saman við ljóð og goðsögur en það er þannig sem mannkynið skilur hluti.““

Andri Snær var hugsi eftir samtalið um hvernig hann gæti fjallað um svo stórt mál. Hann hóf að sanka að sér sögum úr umhverfinu og lesa sér til um málið. „Svo vildi til að ég átti sögur frá fjölskyldunni sem ég gat notað sem farveg. Allt í einu tengist sagan með því að setja hjarta í jökulinn í stað þess að útskýra hann á þurran hátt.“

Þarf að spyrja páfann um leyfi til að tala við Dalai Lama

Þegar Andra Snæ barst svo boð um að taka viðtal við sjálfan Dalai Lama fannst honum um stund sem hann væri staddur í röngum veruleika. „Ég svaraði: „Heyrðu ég er ekki viss, ég þarf að spyrja páfann um leyfi,““ rifjar hann upp og hlær. Að undirbúa sig fyrir viðtalið var eins og að fara í BA-próf að sögn Andra. „Ég las um sögu Tíbet, hindúismans og búddismans en svo í viðtalinu sjálfu hugsaði ég hvað ég vildi að ég væri með sjö hvíslara með átján doktorspróf í kringum mig. Dalai Lama að tala um þessi mál er eins og sagan sé sjálf að segja söguna, eins og Martin Luther King segði frá réttindabaráttu blökkumanna.“ 

Hefur aldrei eignast óvini

Það liggur mikið á Andra Snæ og hann er ástríðufullur þegar kemur að náttúruvernd, það varð ljóst þegar hann gaf út Draumalandið aðeins 33 ára gamall sem vakti sterk viðbrögð, mikla hrifningu og misuppbyggilega umræðu. Aðspurður segist Andri Snær þó ekki hafa eignast óvini í kjölfar bókarinnar. „Ég hef aldrei eignast óvini í persónulegu návígi, ekki meðal nágranna og hvergi þar sem ég hef komið niður. Auðvitað lyndir manni misvel við fólk en ég hef ekki eignast sérstakan óvildarmann,“ segir hann. 

Frelsisverðlaun SUS fyrir Draumalandið

„Ég hef hugsað það eftir á að hann megi nú eiga það þessi strákur að hann óð dálítið hart fram,“ segir hann og hlær um 33 ára gamla Andra Snæ. „Ég var að styggja þarna sterka hagsmuni og rótgróin viðmið um hvernig menn töldu Ísland eiga að þróast eða raunveruleikaskyn einhvers sem taldi að við myndum ekki lifa ef ákveðnar framkvæmdir yrðu ekki að veruleika.“ Þrátt fyrir að hann væri málaður af mörgum sem hippalegur vinstrimaður fékk Andri Snær stuðning úr ýmsum áttum en meðal annars voru honum veitt frelsisverðlaun Sambands ungra Sjálfstæðismanna fyrir bókina.

„Þetta var hræðilegur tími. Mér fannst hræðilegt að vera uppi sumarið þegar ég vissi að nú ætti bráðlega að fylla Hálslón. Aldeyjarfoss átti að fara og það átti að fara með vinnuvélar á helgistaði á hálendinu.“ Andri vaknaði stundum um miðja nótt og fann fyrir mikilli bræði þegar hann hugsaði um það sem var að gerast. Draumalandið er því sprottið úr heitum tilfinningum og mikilli ástríðu enda mikið í húfi fyrir höfundinn. „Það var svo mikil ögurstund þegar það átti að eyðileggja fallegustu staði landsins og ég held það hafi skaðað heilsu manna. Það var stór hópur sem var alveg sturlaður og taldi að þetta væri eina leiðin okkar til að lifa af.“

Hagsmunaaðilar réðu fólk til að hrekja niðurstöðurnar

Ýmsir hagsmunaaðilar risu á afturfæturna í kjölfarið á útgáfunni og margir lögðu sig fram við að rægja hana og niðurstöður hennar. „Ég lét vísindamenn staðfesta það sem fram kom í bókinni. Þetta stóðst allt saman en blaðamenn og Orkustofnun réðu samt fólk til að lúslesa bókina til að finna villur og finna á henni höggstað. En þau kláruðu bókina og sögðu að þetta væri fín bók og fundu ekkert,“ segir Andri kíminn. 

Ógeðsleg tilfinning að geta ekki leiðrétt lygarnar

Andri hefur verið gagnrýndur fyrir fleira en efni Draumalandsins og hugvekjur sínar um náttúruvernd. Árið 2016 urðu raddir mjög háværar í árlegri umræðu um listamannalaun og beindust spjót margra að úthlutun til Andra Snæs síðustu árin. „Það var sagt að ég hefði verið í stjórn Rithöfundasambandsins og úthlutað sjálfum mér fjörutíu milljónum á tíu árum fyrir eina bók,“ rifjar hann upp. „Þetta var svo mikil vitleysa ég hugsaði, „hvernig gat ég skrifað eina bók á tíu árum ef ég fékk bókmenntaverðlaun tvisvar á þessu tímabili, það er ekki hægt.“ Þetta var blómatími hjá mér. Ég skrifaði þrjár bækur og þessa hér, tvö leikrit og heimildamynd. Það er ekki hægt að ljúga að einhver bók sé ekki til en fullt af fólki var tilbúið að trúa þessu.“

Á þessum tíma komst hann að því að eigin sögn hvað internetið getur verið ljótur staður. „Þetta er það eina neikvæða sem ég hef upplifað. Mér finnst eitt að eiga debatt við fólk og leiðinlegt að tapa einhverju en svona internetviðbjóður er einhver ógeðslegasta tilfinning sem þú getur lent í. Það er bara hreinn viðbjóður, af því að þú getur í rauninni ekki leiðrétt hann. Þú hefur einn-tvo daga meðan steypan harðnar.“

Hefði átt að svara gagnrýninni

Andri fór yfir bókhaldið hjá sér eftir að hafa lesið óhróðurinn á netmiðlum og deildi þessum 40 milljónum í mánaðarfjöldann sem hann hafði fengið laun. Útkoman var tvöfalt hærri en launin voru í raun, segir hann. „Ég taldi bækurnar í hillunni líka. Ég var ekki einu sinni í stjórn sambandsins á þessum tíma.“

Andra var ráðlagt að svara gagnrýninni ekki en segir eftir á að hyggja að það hafi verið mistök að segja ekkert. „Ég hefði heldur aldrei getað skrifað þessa bók án þess að fá styrk frá launasjóðinum,“ segir hann. „Það var líkamlega erfitt að skrifa þessa bók. Þetta var ótrúleg vinna, við konan mín unnum í 18 tíma á dag á tímabili.“

Eins og að fæða barn

Það er mögnuð tilfinning að sögn Andra að handleika gripinn eftir slíka erfiðisvinnu. „Þetta er eins og fæðing. Ef konur myndu muna fæðinguna myndu þær aldrei eignast fleiri en eitt barn. Ef maður strýkur bókinni man maður ekki að það er búið að klippa og sauma,“ segir Andri Snær að lokum.

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Andra Snæ í þættinum Gestaboð. Hlýða má á allt viðtalið í útvarpsspilara RÚV.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Hið röklega tengt við tilfinningastrengi

Bókmenntir

Allsherjar breyting á öllu framundan

Menningarefni

„Þá deyja ekki nema 90% af kóralrifjunum!“

Bókmenntir

Ferðabók sem er heillandi og hræðileg í senn