Bókaþjóðin að verða snjalltækjaþjóð

Mynd með færslu
 Mynd: memyselfaneye - Pixabay

Bókaþjóðin að verða snjalltækjaþjóð

17.08.2017 - 15:04

Höfundar

Hún er dökk myndin sem blasir við þegar skoðaðar eru tölur um bóksölu og veltu íslenskra forlaga síðustu ár. Þær eru allar á niðurleið. Á sama tíma hefur snjalltækjanotkun vaxið gífurlega og gagnamagnsnotkun nær tuttugufaldast. Árssalan á bókamarkaði hefur minnkað um rúmlega milljón bækur. Á þessum tíma hefur bóksalan farið úr átta seldum eintökum á hvern landsmann í rúmlega fjögur. Þetta skilar sér í færri titlum og minni gæðum segir bókaútgefandi.

Landsmenn keyptu 43 prósent færri bækur á síðasta ári en þeir gerðu árið 2010. Bóksala hefur dregist saman á hverju ári á þeim tíma. Velta bókaútgáfna hefur minnkað um 31 prósent frá árinu 2008 þegar búið er að taka mið af verðbólgu. Bækur eiga undir högg að sækja líkt og dagblöðin sem hafa misst stóran hluta lesendahóps síns á liðnum árum. Á sama tíma er snjallsíma- og spjaldtölvuvæðing landsmanna í gríðarlegri sókn.

Mjög hefur dregið úr dagblaðalestri undanfarin ár á sama tíma og vegur vefmiðla og annarrar rafrænnar afþreyingar og fjölmiðlunar hefur farið vaxandi. Morgunblaðið, eitt eftirlifandi dagblaða sem lesendur þurfa að greiða fyrir, hefur misst hátt í helming lesenda sinna frá því snemma árs 2007. Fréttablaðið sem berst ókeypis inn um lúguna hjá stórum hluta landsmanna hefur ekki farið varhluta af þessari þróun. Lesturinn hefur minnkað um nær þriðjung á sama tíma.

Rafræn afþreying í stað þeirrar áþreifanlegu

Hrun í lestri dagblaða og sölu bóka helst að nokkru í hendur við mikinn vöxt í rafrænni afþreyingu. Hún birtist einkum með stórsókn snjallsíma og spjaldtölva en líka fjölda annarra raftækja sem nota farsímanet.

Gagnamagnsnotkun Íslendinga hefur enda margfaldast á skömmum tíma. Hún var tiltölulega lítil árin 2011 og 2012, jókst verulega árið 2013 og hefur síðan tekið stórt stökk upp á við hvert einasta ár. Ástæðan er einföld: Ný og betri tæki gera fólki kleift að nálgast sífellt meiri afþreyingu með rafrænum hætti. Snjallsímarnir hafa yfirtekið farsímaheiminn á síðustu árum og spjaldtölvur eru enn algengar. En miklu munar líka um hvers kyns netaðgang gegnum farsímanet sem fólk notar til dæmis til að horfa á sjónvarpsefni hvaðanæva að úr heiminum og kemur líka að notum fyrir aðra rafræna afþreyingu.

Titlum fækkar og gæðum hrakar

Egill Örn Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, segir óumflýjanlegt að hrun í bóksölu og tekjum bókaútgáfna hafi neikvæð áhrif á bókaútgáfu. „Þannig sjáum við að titlum hefur fækkað og ég vil meina að gæðum sé líka að hraka á þessum sama tíma og tekjur hafa dregist saman um næstum þriðjung.“ Hann segir áhrifin þó misjöfn eftir bókaflokkum. „Þannig sjáum við til dæmis að á liðnum árum hefur stórvirkjaútgáfa nánast lagst af, orðabókaútgáfa nánast lagst af og eins hefur orðið mun erfiðara en var að gefa út íslenskar myndskreyttar barnabækur, svo eitthvað sé nefnt.“

Tekjur bókaútgáfna hafa dregist saman með minnkandi sölu. Virðisaukaskattur á bækur hækkaði með skattkerfisbreytingu 2015. Að auki hafa aðföng í bókaútgáfu orðið dýrari. Egill Örn segir að bókaútgefendur hafi ekki treyst sér til að velta auknum kostnaði út í verðlagið á sama tíma og þeir hafi horft upp á samdrátt í sölu. „Sem hefur aftur orðið til þess að enn hefur harðnað á dalnum hjá íslenskum bókaútgefendum.“

Ástæðurnar fyrir minnkandi lestri eru margvíslegar. Þar á meðal aukið aðgengi að rafrænni afþreyingu og hækkun virðisaukaskatts á bækur.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Punkturinn yfir i-ið í minningargrein íslenskrar bókaútgáfu

Bókaútgefendur vöruðu við því að hækkun virðisaukaskatts á bækur myndi hafa slæm áhrif á útgáfuna og afkomu forlaganna. Egill segir að þetta hafi gengið eftir. Það væri auðvitað barnaskapur að ætla að virðisaukaskattshækkunin ein hafi leitt til minnkandi bóksölu. „En það er algjörlega á hreinu í mínum í mínum huga að virðisaukaskatthækkunin gæti verið punkturinn yfir i-ið í því sem gæti orðið minningargrein íslenskrar bókaútgáfu.“

Mikill samdráttur varð í íslensku efnahagslífi eftir hrun. Bókaútgefendur sluppu þó betur frá því en margir aðrir og undu hag sínum vel, segir Egill. Þetta snerist við á síðustu árum. „Það var verulegt áhyggjuefni þegar við sáum aðrar greinar finna viðspyrnu fyrir tveimur til þremur árum síðan en við náðum henni ekki.“ Bókaútgefendur héldu í vonina um að salan tæki við sér á ný en staða bókaútgáfunnar í landinu er orðin alvarleg segir Egill: Hún er sú að við erum komin fram á bjargbrúnina.

epa01321898 Eight-year-old Bentje reads a children's boom in Pokrent, Germany, 21 April 2008. In 1995 the UNESCO installed the World Book and Copyright Day annually celebrated on 23 April to promote reading, publishing and the protection of
 Mynd: EPA

Aukin sala í nokkrum löndum

Víða um heim dró verulega úr hefðbundinni bóksölu þegar rafbækur fóru að ryðja sér til rúms. Það átti til dæmis við í Bandaríkjunum. Síðustu ár hefur þróunin snúist við. Seldum bókum hefur fjölgað ár frá ári síðustu þrjú árin. Bóksala hefur líka farið vaxandi í Bretlandi og á Írlandi en hún minnkaði í fyrra á Ítalíu, Spáni og í Ástralíu.

Aðspurður um hvort sama þróun gæti átt sér stað hér og í til dæmis Bandaríkjunum, bara nokkrum árum síðar, segir Egill Örn að íslenskir útgefendur hafi fylgst með þróuninni erlendis. Hann segir að þeir hafi kannski beðið fullrólegir eftir að álíka viðspyrna finndist á Íslandi og í samanburðarlöndum. „Við bíðum enn í þeirri von en erum orðin ansi langeygð í biðinni.“

Á sama tíma og bóksala hefur tekið við sér í mörgum löndum vestan hafs og austan hefur staða íslenskra bókaútgefenda versnað. Veltan hefur minnkað um nærri þriðjung.

Bækur, snjalltæki og máltaka

Löngum hefur verið mælt með lestri til að þroska málskilning og málörvun. Aukin snjalltækjavæðing þykir bæði fela í sér ógnir og tækifæri. „Snjalltækjavæðing undanfarinna ára hefur valdið breytingum á stöðu íslenskunnar og ýmislegt bendir til að framtíðarhorfur hennar séu nú óræðari en áður,“ sagði Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði við íslensku og menningardeild Háskóla Íslands, í grein fyrir sléttu ári. „Það er þó ljóst að til að styrkja stöðu tungunnar er nauðsynlegt að huga að málumhverfi ungra barna á máltökualdri. Íslenskan á allt undir máltöku og málþroska ungra barna.“

Sigríður sagði snjalltækjaþróun undanfarinna ára að mörgu leyti jákvæða þar sem tölvur og snjallsímar auðveldi samskipti, bjóði upp á margskonar afþreyingu og geri notendum kleift að afla upplýsinga óháð stað og stund. Snjalltækjavæðingin hefði þó einnig aukið notkun ensku í íslensku málsamfélagi. Það hversu snemma börn byrjuðu að nota snjalltæki og hversu algengt væri að stýrikerfi þeirra væri á ensku væri því áhyggjuefni fyrir íslenskuna.

Egill Örn, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, leggur áherslu á bókaútgáfu sem beint er að börnum og ungmennum og að bækurnar nái til þeirra. „Það segir sig sjálft að ef lesendur finna ekki lesefni við sitt hæfi, og þá sérstaklega börn og ungmenni, þá stórlega hrakar valdi barna og ungmenna á íslenskri tungu. Það tekur ekki langan tíma fyrir þau áhrif að koma fram. Við heyrum og höfum séð kennara tala um að börn séu farin að tala mikið til ensku sín á milli. Ef börn ekki fá lesefni við sitt hæfi er útilokað að þau nái nokkru valdi á íslenskri tungu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Erin Kelly - Flickr

Tengdar fréttir

Menningarefni

Þriðjungur bóksölunnar gufaður upp