Bogi Nils undrast ummæli Gylfa um Icelandair

19.09.2019 - 17:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kastljós - RÚV
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir ummæli Gylfa Zoega, nefndarmanns í peningastefnunefnd, um Icelandair í morgun hafa verið frekar ógætileg. Hann segir félagið vel í stakk búið til að takast á við krefjandi aðstæður.

Hvatti stjórnvöld til að fylgjast með Icelandair 

Á fundi peningastefnunefndar með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun hvatti Gylfi stjórnvöld til að beina athyglinni að Icelandair. „Hvenær verður eigið fé þar komið á hættulegt stig. Það má ekki veðja þjóðarbúinu á það að þeir fái bætur frá Boeing. Við vitum ekki hvenær þær koma eða hvað þær verða miklar,“ sagði Gylfi.

Gylfi sagði stöðu ferðaþjónustunnar erfiða. „Launakostnaður er of hár fyrir þessa grein. Hlutfall launa í heildartekjum fyrirtækja í ferðaþjónustu er of hátt. Þetta á við um flugfélögin. Tvö hafa farið á hausinn nú þegar og það þarf að fylgjast með því þriðja. Þetta á við um veitingastaðina og svo framvegis.“

Segir félagið vel í statt

Bogi undrast ummæli Gylfa á fundinum í morgun. „Mér finnst frekar ógætilegt að aðili í þessari stöðu tali með þessum hætti um einstakt félag á opinberum vettvangi ,“ segir Bogi Nils.

„Við birtum síðast uppgjör í lok júni þar sem fram kom við erum með tæplega 30 milljarða króna í lausafé, að meðtöldum óádregnum lánalínum og yfir 50 milljarða í eigið fé. Félagið er því vel í stakk búið til að takast á við krefjandi aðstæður.“

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi