Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Boeing frestar endurkomu MAX-vélanna enn á ný

21.01.2020 - 21:32
epa07432416 An American Airlines Boeing 737-800 departs from Ronald Reagan-National Airport in Arlington, Virginia, USA, 12 March 2019. The Boeing 737 Max 8 aircraft has come under scrutiny after similar deadly crashes in Ethiopia and Indonesia. Several countries and airlines have grounded 737 Max 8 planes.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing tilkynnti í dag um enn frekari seinkun á endurkomu 737 MAX-véla fyrirtækisins í háloftin. Boeing segir nú að vonir standa til að vélarnar geti fengið að fara á loft um miðbik árs. Áður hafði verið vonast til að þær færu í loftið í mars, en Boeing hélt því fram í fyrstu að kyrrsetning vélanna yrði skammvinn. Síðan eru liðnir 10 mánuðir.

Eftir tilkynningu Boeing í dag féllu hlutabréf í fyrirtækinu um nærri fimm prósent á markaði. Fregnir herma að fyrirtækið þurfi að greiða um tíu milljarða Bandaríkjadala til þess að ná yfir þann skaða sem kyrrsetning MAX-vélanna hefur valdið rekstri fyrirtækisins. 

Bandarísk flugmálayfirvöld hafa gagnrýnt Boeing fyrir síendurteknar yfirlýsingar um áætlaða endurkomu MAX-vélanna, og saka fyrirtækið um að beita yfirvöld pressu um að gefa út tilskilin leyfi fyrir flugi vélanna sem fyrst. 

Max vélar Boeing hafa verið í flugbanni síðan um miðjan mars á síðasta ári. Þá hrapaði 737 Max vél flugfélagsins Ethiopian Airlines, og aðeins fimm mánuðum áður hrapaði sams konar vél frá Lion Air.