Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Boðskapur, taktsmíði og textar til fyrirmyndar

Mynd: Logi Pedro / Logi Pedro

Boðskapur, taktsmíði og textar til fyrirmyndar

26.05.2018 - 09:10

Höfundar

Litlir svartir strákar er fyrsta sólóplata Loga Pedro Stefánssonar sem hefur hingað til sinnt laga-, taktsmíði og upptökustjórn af miklum krafti fyrir hina og þessa í yfirstandandi rappbylgju. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn, sem er plata vikunnar á Rás 2.

Ég kipptist við þegar ég sá titilinn á þessari plötu. Djörfung og þor ... og alveg ótrúlega svalt. Komandi frá Loga, þá er þetta beint í andlitið á svo mörgum, hápólitísk hugleiðing um réttarstöðu svartra í samtímanum, bein tilvísun í Litla svarta Sambó, tíu litla negrastráka og þá menningararfleifð sem afhjúpar rangláta heimsmynd. Litlir svartir strákar. Snilld! En um leið er þetta líka persónulegra...

Réttlæti

Logi Pedro, höfundurinn, og bróðir hans Unnsteinn eiga það sammerkt að hafa alla tíð verið beinskeyttir hvað svona mál varðar og talað hreint út um hluti sem særa réttlætiskenndina. Þetta er eitt af því sem hefur skapað þeim nafn í íslensku tónlistarlífi þar sem þeir hafa verið áberandi, í gegnum hljómsveitir eða upp á eigin spýtur. Ólíkir eru þeir; Unnsteinn er út á við, brosir og er skrafhreyfinn á meðan Logi er duli bróðirinn, til baka og fámæltur – alla jafna. Og kemur ekki á óvart að hann hafi fundið sig vel á bakvið tjöldin í yfirstandandi rappsenu, búandi til tónlist og takandi upp á meðan aðrir sjá um sviðsljósið.

Mynd með færslu
 Mynd: Logi Pedro

En nú stígur hann fram, einn og óvaldaður. Platan (umslagið sem hana prýðir er stórkostlegt, svo ég komi því líka að) er tiltölulega stutt, flest laganna á bilinu 2 -3 mínútur. Logi reynir sig við ýmislegt, það eru grípandi, útvarpsvænar smíðar hérna en líka þyngri innslög. Höfundareinkennið er sterkt, þú heyrir að þetta er maðurinn sem semur fyrir Sturlu Atlas, melódísk lög sem dansa á milli hipphopps og r og b. Logi hefur lýst því að hann hafi gengið í gegnum tilfinningakreppu að undanförnu og platan snertir m.a. á því. Í titillaginu segir „Litlir svartir strákar gráta“ og þá kveikir maður, hann er að tala um sjálfan sig. Í hinu fallega „Betra líf“ leyfir hann sér að fara enn dýpra, textinn eins og sjálfsmorðsbréf: „Kveiki á kerti, ég er dáinn. Og svo kemur betra líf.“ Nema þetta vísi í ákveðna endurfæðingu, eftir þær hremmingar sem hann hefur verið í. Logi gerir vel í því að opna sig með þetta allt, hann er fyrirmynd margra, og mikilvægt að yngri karlmenn viti og sjái að allir glíma við hitt og þetta í lífsins erli. Um geðheilsumál ungra karla sagði hann í nýlegu spjalli við RÚV. „Sjálfsmorðin eru bein afleiðing af því að strákar geta ekki talað. Strúktúrinn á vinahópum stráka er annar en stelpna, við fáum ekki að tappa af og margir springa.“

Áfram

„Betra líf“ er strípað og nakið, taktarnir berir og hljóðmotturnar kaldar. Áhrifaríkt. En svo eru hér lög eftir smellasmiðinn Loga. „Dúfan mín“ (ásamt Birni) er grípandi ástaróður og „Nóttin“ töff rökkurballaða sem nýstirnið GDRN syngur með honum. „1998“ er grallaralegur partíóður hvar goðsagnirnar í Skímó koma við sögu. „Ertugeim“ (ásamt Flóna) er líka stórgott, svona „pottþéttur“ smellur þar sem taktlist Loga fær að njóta sín. Heildarmynd plötunnar er dálítið losaraleg, Logi er að reyna sig með ólíkar nálganir  - og reyna sig í fyrsta skipti sem forvígismaður - og það er pínu „hik“ á köflum, eðlilegir vaxtarverkir frumburðar. En heilt yfir; ef litið er til boðskapar, taktsmíða og texta, er þetta til mikillar fyrimyndar og þetta er eitthvað sem Logi á vel að geta massað í framhaldinu – þ.e. hreinan og beinan sólóferil. Hann er með tónlistina, hann hefur eitthvað að segja, hann er bara með „þetta“. Haltu áfram drengur.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Erum öll mannleg að reyna að leysa flækjur“

Tónlist

Inn í eilífðina

Tónlist

Allir eru sjúkir í þá

Tónlist

Óbærilegur léttleiki tilverunnar