Boðskapur Pence merkjasending til Kínverja

04.09.2019 - 19:29
Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun / RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun
Albert Jónsson, sérfræðingur í alþjóðamálum, segir að boðskapur Mike Pence sé einskonar merkjasending til Kínverja um að þessi hluti heimsins tilheyri áhrifasvæði Bandaríkjanna.

„Ég held að þetta snúist fyrst og fremst um það að senda ákveðin merki fyrst og fremst til Kínverja. Og þetta tengist stefnu Bandaríkjanna í vaxandi samkeppni þeirra við Kína sem er rísandi stórveldi í alþjóðamálum. Rússarnir eru  líka hafðir með en hagsmunir þeirra á norðurslóðum er nokkuð þekkt stærð og hefur verið það í áratugi,“ segir Albert. Það hafi reyndar komið fram í  þegar Pence talaði við fréttamenn í dag.

„Það sem er nýtt eru Kínverjarnir. Áhugi þeirra á Grænlandi og á íslandi sem hefur sannarlega komið fram. Kínverski sendiherrann á Íslandi hefur ítrekað í ræðu og riti talað um að íslensk stjórnvöld séu opin fyrir því að undirrita sameiginlega viljayfirlýsingu um þátttöku í svokölluðu Belti og braut sem er risa stórt innviða og fjárfestingarverkefni Kínverja víða um heim en þó aðallega í Asíu Austur-Afríku og Evrópu. Það er þetta sem er nýtt.“

Þetta er okkar áhrifasvæði

Albert segir að það sem líka sé nýtt sé að með örfárra mánaða millibili komi til Íslands utanríkisráðherra og varaforseti Bandaríkjanna og báðir með sömu skilaboðin sem lúti aðallega að Kínverjum.

„Þetta er að mörgu leyti almenn sem Pence segir og við því er að búast. Við getum sagt að þetta sé merkjasending um það að þessi hluti heimsins tilheyrir áhrifasvæði Bandaríkjanna. Það er ekki verið að boða nein átök en að þið skuluð vita það að þetta er okkar svæði og við munum bregðast við,“ segir Albert Jónsson.

Rætt var við hann í Speglinum.

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi