Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Boðar innlimun landtökubyggða á Vesturbakkanum

epa07486564 A man and a woman talk on a train station in Jerusalem before a billboard of Prime Minister Benjamin Netanyahu in an election campaign poster in Russian in Jerusalem, 05 April 2019. Israelis go to the polls in a general election next Tuesday, 09 April.  EPA-EFE/JIM HOLLANDER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Benjamin Netanyahu heitir því að innlima landtökubyggðir gyðinga á Vesturbakkanum í Ísrael, nái hann þingstyrk til að halda áfram sem forsætisráðherra landsins í kosningunum á þriðjudag. Landtökubyggðirnar eru einn stærsti þröskuldurinn í öllum friðarumleitunum á þessum slóðum og meðal ósvífnustu glæpa Ísraela gegn Palestínumönnum.

Hafa þær ítrekað verið fordæmdar enda fara þær í bága við alþjóðalög og hafa ítrekað verið úrskurðaðar ólöglegar af Sameinuðu þjóðunum. Þær eru reistar af strangtrúuðum gyðingum á herteknu landi og varðar af hörku af þungvopnuðum, ísraelskum hermönnum.

Netanyahu var spurður að því í sjónvarpsviðtali, hví hann hefði ekki þegar beitt sér fyrir löggjöf um að fullveldi Ísraels nái einnig til landtökubyggðanna, eins og nánast allir þingmenn Líkúdflokksins, nema hann sjálfur, hafa lýst stuðningi við. Forsætisráðherrann svaraði því til að nú væri kominn tími til að stíga næsta skref í þessum málum. „Ég mun stækka það svæði, sem hið fullvalda, [ísraelska] ríki nær til, og ég mun þar ekki gera greinarmun á stærri, samfelldu landtökusvæðum og einstökum landnemabyggðum.“

Tvísýnar kosningar framundan

Netanyahu á við óvenju ramman reip að draga í kosningunum að þessu sinni og þetta útspil hans er til þess gert að afla honum atkvæða frá harðlínumönnum hægra megin við hann og Líkúdflokkinn, í von um að tryggja honum oddastöðu í komandi stjórnarmyndunarviðræðum.

Skammt er síðan Donald Trump, Bandaríkjaforseti, viðurkenndi ísraelsk yfirráð yfir þeim hluta Golan hæða sem Ísraelar hertóku í Sex daga stríðinu 1967 og innlimuðu í Ísrael 1981. Sameinuðu þjóðirnar skilgreina Golanhæðirnar enn sem sýrlenskt land, en viðurkenning Trumps - og þar með Bandaríkjastjórnar - á innlimun Golanhæða hefur að líkindum aukið Netanyahu kjark til stóryrða.

Talsmaður Mahmouds Abbas, leiðtoga Palestínumanna, segir engar aðgerðir eða tilkynningar breyta staðreyndum: “Landtökubyggðirnar eru ólöglegar og þær verða fjarlægðar,“ segir hann.