Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Boðar byltingu í málefnum fólks með fötlun

09.01.2018 - 20:43
Ásmundur Einar Daðason. - Mynd: RÚV / RÚV
Ríkisstjórnin ætlar að gera byltingu í málefnum fólks með fötlun, að sögn félagsmálaráðherra. Hann segir að ríki og sveitarfélögum beri skylda til að leysa úr ágreiningi um kostnað við þjónustu við fólk með fötlun. Slíkur ágreiningur megi ekki bitna á þjónustunni.

Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í gær að Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi brotið á rétti fatlaðrar konu í Vesturbyggð þegar það var samþykkt að sveitarfélagið myndi skilyrða akstur við tiltekið félagsheimili en ekki greiða fyrir akstur heim til hennar, nokkra kílómetra í burtu. „Það er fyrst og fremst sláandi að heyra þessar fréttir,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra í viðtali í Kastljósi í kvöld. Hann segir að fyrir Alþingi liggi frumvörp sem snúi að félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem vel er skerpt á þeim ákvæðum sem snúi að akstursþjónustu við fólk með fötlun. 

„Breytingarnar byggja á ákvæðum sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég er sannfærður um að þegar þessar lagabreytingar verða komnar í gegn verðum við búin að skerpa það mikið á þessum ákvæðum að við verðum búin að bregðast við þessu. Það eru mun skýrari ákvæði í  nýju lögunum en í þeim lögum sem eru í gildi í dag,“ segir hann. 

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í Kastljósi í gær að það væri ljóst að ríkið þyrfti að létta undir með smærri sveitarfélögum þegar kæmi að þjónustu við fólk með fötlun. Ásmundur Einar segir að ríki og sveitarfélög séu alltaf í samræðum um kostnaðarskiptingu og að Ísland hafi undirgengist samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þegar hann tók við embætti ráðherra ráðlagði vinkona hans honum að lesa samninginn vel. „Ég segi að þar erum við með algerlega með skýrar línur um að við ætlum að gera byltingu í málefnum fatlaðs fólks. Ég vil að við flýtum því. Ríki og sveitarfélögum ber skylda til þess að leysa úr þeim ágreiningi sem þarna er á milli. Ef hann snýst um skiptingu kostnaðar þá má það ekki með nokkrum hætti bitna á þeim einstaklingum sem við erum búin að skuldbinda okkur til  þess að veita þá þjónustu, sem við sannarlega eigum að veita samkvæmt þessum samningi.“