Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Boða verkfallsaðgerðir sem ekki hafa sést

Mynd með færslu
 Mynd: Ásgrímur Örn Hallgrímsson - www.ein.is
Alvarleg staða er uppi í kjaraviðræðum Starfsgreinasambandsins og Einingar-Iðju við samninganefnd íslenskra sveitarfélaga en þær hafa staðið yfir frá því í febrúar síðastliðinn, að því er segir í ályktun frá trúnaðarmönnum félagsins sem starfa hjá sveitarfélögunum. Þar segir meðal annars að ef eingreiðsla sem óskað hefur verið eftir kemur ekki muni samninganefnd sveitarfélaganna sjá verkfallsaðgerðir sem ekki hafa sést á undanförnum árum.

Þetta kemur fram á vef Einingar-Iðju. Starfsgreinasambandið vísaði deilunni til sáttasemjara þann 28. maí síðastliðinn. Síðan þá hafa tveir fundir verið haldnir en engin niðurstaða er komin í málið. Mönnum greinir einna helst um lífeyrismál. Næsti fundur hjá Ríkissáttasemjara fer fram 21. ágúst. 

Samninganefnd sveitarfélaganna hefur að undanförnu samið við önnur sambönd og félög um frestun viðræðna og friðarskyldu til 15. september. Búið er að semja um eingreiðslu að upphæð 105 þúsund króna fyrir 100 prósent vinnu. Formaður samninganefndar sveitarfélaga sagði nei við eingreiðslunni þar sem búið væri að vísa deilunni til sáttasemjara. 

Í ályktuninni kemur fram að ef eingreiðslan berst ekki verði hörðum verkfallsaðgerðum beitt. Þá eru félagsmenn sem vinna hjá sveitarfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu hvattir til að undirbúa sig fyrir hörð átök í haust „sem munu koma niður á þjónustu við þá sem minnst mega sín. Þjónusta sveitarfélaganna við almenna borgara mun skerðast og stöðvast að miklu leyti ef til þessa kemur. Fundurinn lýsir fullri ábyrgð á hendur samninganefnd sveitarfélaganna og sveitarstjórnum á svæðinu ef svo alvarlegt ástand skapast,“ segir í ályktuninni. 

helenars's picture
Helena Rós Sturludóttir
Fréttastofa RÚV