Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Boða sókn og stöðugleika

Mynd: Skjáskot / RÚV
Efnahagslegur stöðugleiki, sóknarfæri í efnahagsmálum og stórsókn í mennta- og samgöngumálum voru meðal þess sem formenn stjórnarflokkanna lögðu áherslu á þegar þeir kynntu stjórnarsáttmálann í morgun. Einnig átak í umhverfismálum þar sem Ísland ætli að ganga lengra en stjórnvöld skuldbundu sig til að gera samkvæmt Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál. Formennirnir lögðu allir áherslu á að efla Alþingi og breyta vinnubrögðum.

Innviðauppbygging og stöðugleiki

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og verðandi forsætisráðherra, lagði áherslu á innviðauppbyggingu þegar hún kynnti sáttmálann; sérstaklega í heilbrigðiskerfi, menntakerfi og samgöngukerfi. Stjórnin ætlar sér að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og skapa sátt á vinnumarkaði, sagði Katrín. Hún sagði að það yrði forgangsmál hjá ríkisstjórninni að kalla aðila vinnumarkaðarins til funda, eins og gert var í stjórnarmyndunarviðræðunum.

„Það hefur verið okkar leiðarljós í þessum viðræðum að við séum að taka höndum saman um tiltekin verkefni sem við teljum vera lykilatriði fyrir íslenskt samfélag og íslenska þjóð,“ sagði Katrín. Um leið eigi að ná saman um önnur mál og reyna að ná samstöðu um ýmislegt það sem hefur verið deilt um í íslensku samfélagi. Þessu til viðbótar ætti að styðja við bakið á Alþingi til að auka vægi þess.

Vinstri græn fá forsætisráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og umhverfisráðuneytið í sinn hlut. Í heilbrigðisráðuneytinu verður forgangsverkefni að móta skýra heilbrigðisstefnu sagði Katrín. Þar á meðal um hvernig eigi að forgangsraða fjármunum. Í umhverfismálum á að ganga lengra en nemur skuldbindingum Íslands samkvæmt Parísarsamkomulaginu. „Við gerum ráð fyrir að stefna að kolefnishlutleysi,“ sagði Katrín.

Þjóð í sóknarhug

Hér er þjóð í sóknarhug sem ætlar að sækja fram, sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og verðandi fjármálaráðherra. Hann sagði að nýta ætti efnahagsástandið til þess að allir Íslendingar njóti góðs af, bæði hvað varðar félagslegt öryggi og almenna velsæld í landinu.

Bjarni vísaði til lágrar verðbólgu og lágra vaxta í sögulegu samhengi. Það er ýmislegt að falla með okkur Íslendingum um þessar mundir, sagði Bjarni. Þannig yrðu þjóðartekjur í ár meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Bjarni lagði áherslu á að gott samstarf þyrfti að nást við aðila vinnumarkaðarins. Án þess yrði árangurinn af starfinu minni en ella. Hann sagðist hafa trú á að Íslendingar væru á þeim tímamótum að stjórnmálin færu að virka aftur fyrir alla landsmenn. „Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta undir okkur sjálfum komið því ytri aðstæður eru gríðarleg hagfelldar fyrir okkur Íslendinga.“

Hann lagði eins og aðrir áherslu á að Alþingi ætti að vera sterkt og valdamikið.

Sjálfstæðisflokkurinn fær fjármálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, ferða- og iðnaðarráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.

Stórsókn í samgöngu og menntamálum

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að sáttmálinn væri óvenju ítarlegur, hann tæki bæði á því sem sameinaði flokkana og ýmsu sem væru áskoranir í framtíðinni.

Menntamálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið falla Framsóknarflokknum í hlut. „Sú stórsókn sem verður bæði í samgöngu- og menntamálum horfir til landsins alls,“ sagði Sigurður Ingi. Hann sagði margt gott hafa verið gert í húsnæðismálum en að horft væri til leiða til að gera betur.

„Við munum taka markviss skref til afnáms verðtryggingarinnar á þessu kjörtímabili,“ sagði Sigurður Ingi.

Í byggðamálum er aðalatriðið að allir landsmenn sitji við sama borð þegar kemur að aðgangi að þjónustu og lífsgæðum. Árið 2020 á að vera búið að ljósleiðaratengja 99,9 prósent heimila í landinu. Skoða á hvernig hægt er að gera innanlandsflugið hagkvæmara, taka á á tannlæknakostnaði aldraðra og öryrkja, hafa samráð við heildarsamtök örorkulífeyrisþega um endurskoðun á tryggingakerfinu, sagði Sigurður Ingi og gera úttekt á kjörum þeirra tekjulægstu.

Sigurður sagði stjórnarsáttmálann horfa til þess að gera hag hins venjulega Íslendings betri.

Sterk stjórn þótt tvo vanti

Ég veit ekki hvort það er vandamál fyrir okkur að tveir þingmenn Vinstri grænna styðja ekki stjórnina en við hefðum viljað hafa alla með sagði Sigurður Ingi þegar spurt var um afstöðu Andrésar Inga Jónssonar og Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanna Vinstri grænna sem greiddu atkvæði gegn stjórnarsáttmálanum. Bjarni sagði það sýna styrk stjórnarinnar að hún hefði öruggan meirihluta þrátt fyrir að tveir þingmenn styddu stjórnina ekki. Það sem okkar samstarf snýst um er að mynda meirihluta um þessi verkefni sem eru sett hér á blað.

Katrín sagði að hún gæti nefnt ýmislegt sem hún hefði viljað hafa í stjórnarsáttmálanum en lagði áherslu á það sem í honum er að finna. Þar nefndi hún sérstaklega heilbrigðismálin og menntamálin. Sigurður Ingi sagði að eitt það besta í stjórnarsáttmálanum væri jafnvægi milli þess að áherslur allra flokka komi fram. Hann sagði að nú væri sleginn sá tónn að meira yrði um þverpólitíska vinnu.

Setji rækilega mark á fjárlög

Það sem við þurfum eru svona fjórir mánuðir. Það sem við fáum eru fjórir dagar,“ sagði Bjarni aðspurður um gerð fjárlagafrumvarpsins. Nýtt frumvarp með uppreiknuðum upplýsingum verður lagt fram í upphafi þings. Bjarni taldi stjórnina telja að hún geti sett mark sitt rækilega á fjárlagafrumvarpið þó aðeins gefist fjórir dagar til þess.

Þing kemur saman einhvern tímann um miðjan mánuðinn, sagði Katrín.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV