Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Blöskrar magn rusls sem fýkur frá urðunarstað

20.05.2019 - 18:28
Mynd með færslu
Sorpurðun í Fíflholti á Mýrum. Þingmennirnir vilja minnka urðun og frekar brenna sorp. Mynd: Rakel Steinarsdóttir - Aðsend mynd
Íbúum í nágrenni við urðunarstað Sorpurðunar Vesturlands blöskrar að þaðan skuli fjúka töluvert magn af rusli og vilja ekki að þar verði urðað meira magn af sorpi, líkt og óskað hefur verið eftir. Framkvæmdastjóri urðunarinnar segir starfsemina samkvæmt reglum og að reynt sé að tína upp það rusl sem fjúki.

Rakel Steinarsdóttir birti meðfylgjandi myndband á Facebook-síðunni sinni í gærkvöld og hefur því verið deilt yfir þrjú hundruð sinnum. Á því má sjá urðunarstaðinn Fíflholt. Þar er urðaður allur blandaður úrgangur frá heimilum, sveitarfélögum og fyrirtækjum á Vesturlandi og einnig hluti úrgangs frá sveitarfélögum á Suðurlandi og Vestfjörðum. Sorpurðunin er í eigu sveitarfélaganna á Vesturlandi.

Segir ruslið með allra mesta móti í vetur

Sigurður Jóhannsson, bóndi á Kálfalæk, býr í um níu kílómetra fjarlægð frá urðunarstaðnum. Hann segir að í vetur hafi óvenju mikið rusl fokið frá Fíflholtum. „Það hefur verið með því allra mesta sem við höfum séð.“ Sigurður telur að bæði sé meira rusl þar og austanáttir tíðari. Hann kveðst langt frá því að vera sáttur. „Þetta er óviðunandi eins og það hefur verið í vetur.“ Hann kveðst hafa orðið var við það seinni part vetrar að umræða um málið á svæðinu hafi aukist. Fólk stoppi hann oftar en áður á förnum vegi til að ræða um stöðuna. 

Framkvæmdastjóri segir starfsemi samkvæmt reglum

Hrefna B. Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Sorpurðunar Vesturlands, segir að starfsemin sé undir eftirliti Umhverfisstofnunar og samkvæmt ákveðnum stöðlum. Urðunarstaðurinn geti litið misjafnlega út frá degi til dags. Það sé ekkert óeðlilegt við stöðuna þar nú. „Þetta er urðunarstaður og aðkoman þangað er ekki eins og að koma inn á óspillt land,“ segir hún. Það sé oft rok hér á landi og að starfsmenn fyrirtækisins reyni eftir fremsta megni að tína upp það rusl sem fýkur. „Stundum fáum við ungmennafélagið á Mýrunum til að hjálpa okkur.“ Þá segir Hrefna að meira sorp berist þegar efnahagurinn vænkist.

Vilja leyfi fyrir urðun á 10.000 tonnum í viðbót árlega

Heimilt er að urða 15.000 tonn á ári í Fíflholtum. Sorpurðun Vesturlands vill fá að auka magnið upp í 25.000 tonn á ári. Sigurður segir að möguleg stækkun leggist ekki vel í fólkið sem býr í næsta nágrenni.

Á síðasta ári voru yfir 15.000 tonn urðuð og segir Hrefna að því hafi verið óskað eftir stækkun. Óskað er eftir svo mikilli stækkun til að geta tekið við hluta sorps frá Suðurlandi. Urðunarstaðir þar geta ekki tekið við öllu sorpi af svæðinu. Sorpbrennslu Vestfirðinga var lokað fyrir nokkrum árum. Árlega er tekið við um það bil 2.300 tonnum frá Vestfjörðum og á þessu ári verður tekið við 2.500 tonnum frá Suðurlandi til urðunar. 

Skora á ríkisstjórnina að gera áætlun í sorphirðumálum

Haldinn var kynningarfundur um stækkunina í mars þar sem fundurinn ályktaði meðal annars að sett verði net umhverfis svæðið sem urðað er hverju sinni og að unnið verði skipulega að því að halda vargfugli frá svæðinu. Á ályktuninni er mögulegri stækkun mótmælt harðlega. Þá skoraði fundurinn á Guðmund Inga Guðbrandsson, umhverfisráðherra og Ásmund Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, að þeir beiti sér fyrir því í ríkisstjórn að gerð verði ný og framsækin áætlun um endurvinnslu og eyðingu á sorpi. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir