Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Blokkin á Raufarhöfn í endurnýjun lífdaga

27.12.2019 - 17:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Blokkin á Raufarhöfn, sem hingað til hefur verð einna þekktust fyrir hvað hún er ljót, er nú að fá rækilega andlitslyftingu. Þetta hús sem verið hefur í mikilli niðurníðslu árum saman verður því jafnvel hin mesta bæjarprýði.

Blokkin við Aðalgötu blasir við þegar keyrt er inn í þorpið og er það hús sem einna mest hefur verið myndað á Raufarhöfn í gegnum árin. Blokkin er því löngu orðin landsfræg fyrir útlitið og hefur í áratugi verið hálfgert andlit Raufarhafnar út á við. Og þá ekki fallegt andlit. Hún stóð hálftóm árum saman og ástand hennar var orðið afar slæmt.

En það er að breytast. Í desember 2017 keypti fyrirtæki í eigu fimm systkina frá Raufarhöfn blokkina og síðan þá hefur verið unnið að gagngerum endurbótum á húsinu. Þarna eru ellefu íbúðir og nú eru sjö þeirra í útleigu og systkinin bjartsýn á að geta komið öllum íbúðunum út.

Það er enn nokkuð í að viðgerðum ljúki en það útlit sem nú blasir við er talsvert ólíkt því sem íbúar á Raufarhöfn hafa þurft að venjast hingað til. Því er óhætt að fullyrða að blokkin verði að lokum hið glæsilegasta hús.