Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Blóðugur kjördagur að baki í Nígeríu

24.02.2019 - 03:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Minnst sextán týndu lífi í átökum í tengslum við forseta- og þingkosningarnar í Nígeríu á laugardag og mörgum sögum fer af meintu kosningasvindli og tilraunum til slíks. Kjörstaðir voru ríflega 120.000 og biðraðir voru enn við marga þeirra, þegar kosningum átti formlega að ljúka.

AFP-fréttastofan hefur eftir fulltrúum nokkurra nígerískra félagasamtaka, sem unnu saman að eftirliti með kosningunum, að minnst sextán manns í átta ríkjum landsins hafi fallið í blóðugum átökum á kjördag. 

Kveikt í kjörkössum og atkvæði boðin til sölu

Kosningaeftirlitsmenn og hermenn hafa greint frá því að kveikt hafi verið í kjörkössum á allmörgum stöðum og dæmi eru um að hermenn hafi skotið á fólk, sem þeir grunuðu um græsku á kjörstað. Einnig eru sögð fjölmörg dæmi þess að kjósendur hafi falboðið atkvæði sitt.

73 buðu sig fram til forseta en aðeins tveir karlar á áttræðisaldri bítast um sigurinn; þeir Muhammadu Buhari, forseti, og Atiku Akubakar, fyrrverandi varaforseti. 6.500 frambjóðendur bítast svo um 360 sæti í fulltrúadeild þingsins og 109 sæti í öldungadeildinni. Talning er hafin, en úrslita er ekki að vænta fyrr en í fyrsta lagi á þriðjudag. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir