Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Blóðugt að geta ekki nýtt íbúðir ÍLS

31.08.2012 - 11:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, segir að reglurnar séu ekki að virka hjá Íbúðalánasjóði. Sala og leiga á íbúðum í eigu sjóðsins eigi að fara fram í opnu ferli en það taki mánuði að koma íbúðunum á skrá og svo gerist lítið sem ekkert.

Íbúar á Snæfellsnesi eru óánægðir með að íbúðir standi auðar en fái hvorki leigðar né keyptar. Fólk geti ekki flutt í bæinn því það fái ekki húsnæði. Kristinn Jónasson bæjarstjóri segir að það taki Íbúðalánasjóð marga mánuði að setja húsnæði á söluskrá. Ferlið eigi að vera opið og allir fasteignasalar að koma að sölunni en það virki illa. Það hafi verið  miklu betra áður þegar fasteignasali á Snæfellsnesi hafi fengið eignir í sölu og selt þær eða leigt.

Kristinn segir að þetta sé blóðugt fyrir íbúana að horfa upp á. „Þetta er svo arfavitlaust. Ef við förum í gegnum þetta þá er til laust húsnæði á staðnum. Íbúuðalánasjóður ber kostnað af því í dag, Það þarf náttúrulega að kynda þetta og borga tryggingar, við fáum ekki útsvarstekjur af fólki sem ekki fær vinnu, það fækkar ekki á atvinnuleysisskrá, Íbúðalánasjóður þarf að fá stuðning því það minnkar rekstrarhagkvæmni sjóðsins þannig að það eru allir að tapa á þessu."