Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Blóðbankann sárvantar blóð um jólin

20.12.2012 - 19:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Blóðbankinn biður sem flesta um að gefa blóð á fimmtudaginn milli jóla og nýárs því það er eini opnunardagurinn þá vikuna.

Um átta til tíu þúsund manns gefa reglulega blóð. Þeir þurfa að gefa upplýsingar um heilsufar. Þá er blóðþrýstingur mældur.

Það stefnir allt í rauð jól í ár, 140 manns gáfu blóð í dag. Aðfangadag, jóladag og annan dag jóla ber upp á virkum dögum í ár og Blóðbankinn er lokaður á föstudögum þannig að staðan þar er óvenjuleg í ár

"Það mun verða þannig að eini virki dagurinn sem við erum með blóðsöfnun er fimmtudagurinn 27. desember," segir Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir hjá Blóðbankanum. "Það er sá dagur sem við viljum að landsmenns séu búnir að merkja við með rauðu að koma að Snorrabraut að gefa blóð."

Sveinn segir að þó svo að fólk hafi fengið sér ríflega af rjóma og purusteik um jólin þurfi það ekki að óttast að gefa blóð. Há blóðfita sjáist þannig að blóðvökvin hvítnar.

"Við þurfum að fá á þeim degi á milli 70 og 100 blóðgjafa til að fylla upp í öryggisbirgðirnar okkar vegna þess að Landspítalaninn er eins og borg sem sefur aldrei, á landspítalanum eru yfir jól og áramót sjúklingar sem eru að jafna sig eftir stórar aðgerðir, slys, annað, folk sem er í krabbameinsmeðferð og þetta fólk þarf blóðhluta," segir Sveinn.

Flestir gefa blóð og tekur það um fimmtán mínútur en fólk gefur líka blóðflögur og tekur það hálfa aðra klukkustund. Þá staldra blóðgjafarnir við á eftir, fá sér hressingu og fylgst er með því að allt sé í lagi. Það heyrir til undantekninga að blóðgjafi falli í yfirlið.