Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Blóð úr Birnu fannst í rauða Kia Rio-bílnum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Grímur Grímssson, yfirmaður rannsóknar á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, segir að niðurstaðan úr rannsókn á lífsýni sem fannst í rauðum Kia Rio-bíl hafi verið mjög mikilvæg og lögreglan geti nú með óyggjandi hætti sýnt fram á að Birna hafi verið í bílnum. Hann staðfestir að lífsýnið, sem þeir hafi fengið niðurstöðu úr í dag, hafi verið blóð úr Birnu.

Lögreglan hefur eytt töluverðum tíma í rannsókn á rauðum Kia Rio-bíl sem hún lagði hald á í Kópavogi á þriðjudag. Einn þeirra sem situr í gæsluvarðhaldi hafði bílinn á leigu.

Fram kom á ruv.is í gær að lífsýni hefðu verið send til Svíþjóðar og að þau væru þar í forgangi.  Í dag kom svo niðurstaðan úr þeirri rannsókn sem lögreglan lagði mesta áherslu á  - lífsýni sem fannst í bílnum - en það reyndist vera úr Birnu. Grímur segir að nú sé beðið eftir niðurstöðum rannsókna úr fleiri lífsýna-rannsóknum. Hann á ekki von á að mennirnir tveir sem sitja í gæsluvarðhaldi verði yfirheyrðir í dag.

Grímur segir þetta mjög mikilvæga niðurstöðu - nú sé ekki lengur hægt að tala um tilgátu að Birna hafi farið inn í bílinn heldur geti þeir fullyrt það með óyggjandi hætti. Hann segir þá hafa rökstuddan grun um ferðir rauða bílsins og reiknar með að niðurstaðan úr lífsýna-rannsókninni verði lögð fyrir Hæstarétt þegar krafist verður lengra gæsluvarðhalds yfir mönnunum tveimur. Það sé þó ákærusviðs að ráða því. Lögreglan krafðist fjögurra vikna gæsluvarðhalds yfir mönnunum en héraðsdómur taldi tvær vikur nægja.

Aðspurður hvort lögreglan hafi gert svokallaða blóðferlarannsókn segir Grímur að lögreglan og tæknideild hennar hafi notað öll tæki og úrræði sem þeir ráði yfir við rannsókn málsins en blóðferla­rann­sókn­ir taka til dreif­ing­ar, staðsetn­ing­ar og stærðar blóðdropa á vett­vangi. 

Fram kom á visir.is fyrir helgi að blóð hefði fundist í rauða bílnum. Grímur staðfestir að lífsýnið sem niðurstaðan fékkst úr í dag hafi verið blóð úr Birnu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV