Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Blikur á lofti í ferðaþjónustu vegna verðlags

17.04.2018 - 09:54
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Hátt verðlag fælir ferðamenn frá Mið-Evrópu frá Íslandi, að sögn Bjarnheiðar Hallsdóttur, formanns Samtaka ferðaþjónustunnar. Verð á þjónustu hefur hækkað mikið á síðustu þremur árum með sterkari krónu og launahækkunum og er nú svo komið að rík ástæða er til að hafa áhyggjur af þróuninni enda hefur verðlag bein áhrif á eftirspurn.

 

Bjarnheiður, sem nýverið tók við formennsku, var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1. Hún sagði Mið-Evrópubúa þá gesti sem í gegnum árin hefðu gefið okkur mest enda dveldu þeir lengi í landinu, þekktu það vel og færu víða um. Ferðahegðun Bandaríkjamanna og Asíubúa, sem fjölgað hefði að undanförnu, væri öðru vísi og ekki jafn ábatasöm.

 

 

 

 

Bjarnheiður segir mikilvægt að mótuð verði heildstæð stefna í ferðaþjónustu í samvinnu stjórnvalda og fyrirtækja í ferðaþjónustu. Slík stefna sé ekki til og hafi aldrei verið. Með henni verði ákveðið hvernig ferðaþjónustu Ísland ætlar að byggja upp og veita og til hvaða markhópa verði höfðað.

 

 

Það er skoðun Bjarnheiðar að ekki beri að skattleggja ferðamenn meira en þegar er gert og nefnir hún að árið 2015 voru nettótekjur ríkis og sveitarfélaga vegna ferðamanna um 65 milljarðar króna. Þá er hún mótfallin hugmyndum um náttúrupassa og gjaldtöku við náttúruperlur.

 

bjornthor's picture
Björn Þór Sigbjörnsson
dagskrárgerðarmaður