Blautklútarnir enn „langstærsta vandamálið“

19.11.2018 - 08:55
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Milljarðir manna fylla klósett sín af alls kyns rusli sem á þar ekki heima. Alþjóðlegi klósettdagur Sameinuðu þjóðanna er í dag og í ár er þemað Náttúran kallar. Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri fráveitu Veitna, ræddi um rusl í fráveitunni hér á landi í Morgunútvarpinu í morgun í tilefni þess. Hún segir að undanfarið hafi verið einblínt á þann vanda sem fylgi blautklútum í fráveitunni. Þeir séu enn langstærsta vandamálið sem Veitur glími við.

„Við gerum þetta held ég núna þriðja árið í röð hjá Veitum að tala um blautklútinn en það er náttúrlega af því að framleiðendur merkja líka oft þessa blautklúta eins og það megi sturta þeim niður og þess vegna finnst okkur við þurfa að koma fram og reyna að koma því á framfæri að það er ekki í lagi. “

Tiltölulega algengt sé að klútarnir stífli lagnir í húsum hjá fólki. „Því þessir klútar komast kannski í gegnum vatnslásinn á klósettinu þínu en þetta eru mjög sterkir klútar, búnir til úr sterkum þráðum og yfirleitt úr plasti að einhverjum hluta. Þó þeir komist kannski gegnum vatnslásinn á klósettinu þínu þá geta þeir stíflað ef eitthvað hak er í lögnunum og annað slíkt. Þannig að þeir geta stíflað lagnir heima hjá þér. Til dæmis hef ég heyrt um tvo leikskóla þar sem að stíflaðist og þar kom í ljós að heimaæðin var stútfull af blautklútum þannig að þetta getur alveg gjörsamlega stíflað.“

Íris segir að það sé algengt að blautklútar stífli dælur hjá Veitum. Þá getur það gerst að dælikerfið hafi ekki undan og óhreinsað skólp flæði út í sjó á meðan unnið er að viðgerð. „Kerfin okkar virka 98% af tímanum eða meira og þá erum við að ná að dæla þessu út í hreinsunarstörfunum. En ef kerfin virka ekki og þar sem er ekki skólphreinsun, sem er náttúrlega ekki alls staðar á Íslandi, að þá ratar þetta út í sjó.“

Blautklútarnir, sem og eyrnapinnar, dömubindi og tannþráður sem einnig lendir oft í klósettinu, séu einnota plastvörur sem eigi að henda í ruslið en ekki í klósettið. 

„Það er verið að selja okkur þægindin en við verðum kannski einhvern tímann að rísa upp úr því og vera meiri manneskjur og taka tillit til umhverfisins.“

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi