Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Blái liturinn er sýnilegt myrkur“

Mynd: Netflix / Netflix

„Blái liturinn er sýnilegt myrkur“

28.08.2017 - 17:06

Höfundar

Sjónvarpsþáttunum Ozark frá Netflix hefur verið lýst sem eins konar blöndu af Breaking Bad og Narcos - enda þema þáttanna peningar og fíkniefni.

Jason Bateman fer með hlutverk fjármálaráðgjafans Marty Byrde og Laura Linney með hlutverk Wendy, eiginkonu hans. Fjölskyldan býr í úthverfi Chicago og líf þeirra virðist í fyrstu afar hefðbundið og tilbreytingalaust. Huggulega innréttað hús í úthverfi, heimavinnandi húsmóðir, tveir unglingar og faðir sem vinnur í fjármálageiranum. Fljótlega kemur í ljós að Marty Byrde er flæktur í peningaþvætti mexíkóskra eiturlyfjabaróna. Hver atburðurinn rekur annan og úr verður að fjölskyldan flytur í skyndi til Ozark-fjalla Missouri-ríkis.

Líkt og Byrde-fjölskyldan virðast íbúar Ozark-fjalla í fyrstu, lifa hefðbundnu einhæfu smábæjarlífi. Prestur sem predikar, eldri hjón sem rækta blóm og hunang og fátækt fólk í hjólhýsum. En ekki er allt sem sýnist. Fljótt kemur í ljós að fátæka sveitafólkið er klárara en sýnist, raunverulegur rekstur hjónanna er framleiðsla og dreifing eiturlyfja. Presturinn predikar en í sálmabókum hans leynast heróínskammtar, enda kirkjan stofnun sem skattstofa og lögregluvald forðast að hafa afskipti af. Hinseginleiki er fordæmdur en að sjálfsögðu leynist hann í Ozark eins og alls staðar annars staðar. 

Marghliða og tengjanlegir karakterar

Að baki hverjum karakter, hverri fjölskyldu, hverju fyrirtæki er sagan þó talsvert dýpri. Í aðeins tíu þáttum, ná handritahöfundarnir Bill Dubuque og Mark Williams, að búa til marghliða og tengjanlega karaktera. ,,Ekkert er svart í raun og veru, ekkert,‘‘ eins og Frida Kahlo skrifaði í dagbók sína 1947. Höfundar leika með einsleitar hliðar mannsins og sem áhorfandi fellur maður iðulega í gryfju þeirra. Þeir byggja upp myndir af persónunum sem þeir brjóta jafnskjótt niður. Ekkert er svart í þáttunum Ozark, rétt eins og allsstaðar, alltaf. Mexíkóski eiturlyfjabaróninn sem virðist fara létt með að rífa úr mönnum augu, limlesta og pynta, er einnig hlýr fjölskyldumaður. 

Peningar í allri sinni dýrð og í öllum sínum ljótleika 

Aðalþema þáttanna eru peningar. Peningar í allri sinni dýrð og peningar í öllum sínum ljótleika. Marty Byrde er ástúðlegur fjármálaráðgjafi. Hann á tvö börn og konu sem hann elskar af öllu hjarta en einn daginn stendur hann frammi fyrir erfiðri ákvörðun. Örlítil græðgi, sem flestir kunna að kannast við, græðgi í bland við trú og von um betra líf, breytir vegferð fjölskyldunnar að eilífu.

Symbólismi er ríkur í þáttunum enda hefst hver þáttur á fjórum einkennandi táknum. Ásýnd sjónvarpsþáttanna er blágrá. „Blue is darkness made visible,“ eins og kvikmyndagerðamaðurinn Derek Jarman komst að orði í mynd sinni Blue frá árinu 1993. Blái liturinn er sýnilegt myrkur. Ásýnd þáttanna, klæðnaðurinn, leikmyndin, allt er afar grátt og blátt. Kvikmyndatakan er hrá eins og vinsælt er í dag. Engin birtuskil, engin litamettun. Útlitið er hrátt. Það er mikið um ofbeldi, blóð og óhug en þó væri ranglátt að kenna þættina einungis við slíkt – því þeir fela einnig í sér grín, gleði og ást. Ástin er kannski jafn veigamikið þema í þáttunum, enda haldast peningar og ást fast í hendur – til hvers brauðfæðum við annars fjölskylduna?

Sterk kvenhlutverk 

Kvenhlutverkin eru sterk; konur eru bæði góðar og vondar. Að mínu mati er allavega eitthvað eflandi við það að sjá konur í öllum sínum fjölbreytileika, þó að hann sé á köflum krýndur ofbeldi og illsku. Ruth Langemore, er t.d. ein slíkra kvenpersóna í þáttunum: Ung stúlka, alin upp í fátæku hjólhýsahverfi – Gáfur hennar, nauðhyggja, metnaður og trú um betra líf gerir hana að sterkri kvenfyrirmynd. Fortíð og aðstæður gera það að verkum að hún lætur engan vaða yfir sig og sína. Hún er óhrædd við að berjast við bæði konur og karla – og háttarlag hennar er sjaldséð meðal kvenna í sjónvarpi. Samkynhneigð er einnig sýnd á sjaldséðan máta. Leynilögregluþjónn að nafni Roy Petty, rannsakar glæpi Marty Byrde og mexíkóska eiturlyfjahringins. Í rannsóknum notar hann sjarmann til að lokka að sér vitni. Kynhneigð hans er aldrei neitt feimnismál. Hann er bara samkynhneigður, rétt eins og Marty Byrde er gagnkynhneigður.

Viljum helst trúa að markaðurinn sé minni en hann er í raun og veru 

Eins og áður kom fram þá snýst þetta að mestu leyti um peninga. Peninga, Peningar haldast í hendur við alþjóðahagkerfi, hnattvæðingu, stéttaskiptingu, peningar haldast stundum í hendur við ofbeldi. Þeir haldast í hendur við góðæri, ameríska drauminn, kapítalisma. Þeir haldast í hendur við eiturlyf. Og allt eru þetta efni sem tekið er á í Ozark. Undirheimar eiturlyfjanna, eiturlyfjaneysla, eiturlyfjasmygl, eiturlyfjabarónar og allt sem dreifingu og sölu lyfjanna fylgir, á það til og að fá á sig einhliða mynd. Þættirnir Ozark gefa langt því frá einhliða mynd af ástandi sem við búum í raun öll við. Eiturlyf eru að einhverju leyti bleiki fíllinn í samfélagi allra landa.

Í síðustu viku greindi Fréttablaðið frá sprengingu sem orðið hefur á kókaíninnflutningi til Íslands á undarförnum árum. Tollgæslan lagði hald á tæplega 21 kíló af efninu á fyrstu sjö mánuðum ársins, en það er næstum jafnmikið magn af kókaíni og lögregla og tollgæsla lögðu hald á árin fjögur þar á undan til saman. Grímur Grímsson sagði blaðamanni Fréttablaðsins að í síðasta góðæri hafi lögreglan orðið vör við aukna notkun kókaíns og sama væri upp á teningunum í efnahagslegum uppgangi síðustu missera.

BBC World Service fjallaði nýlega um eiturlyfjastríð í Evrópu. Í heimildarþættinum ,,Europe's Drug Wars‘‘ greindi írski blaðamaðurinn Paul Williams frá eiturlyfjafaraldri um Evrópu. Eiturlyf koma okkur oft á óvart. Hvernig getur það verið að Ástralinn Jack Bobridge, fyrrum heimsmeistari og heimsmetahafi í hjólreiðum, ólympíufari, hvernig getur hann verið dópsali og nú á leið fyrir rétt vegna ákæra fyrir að selja og útvega lyf á borð við MDMA, kókaín, metamfetamín og kannabisefni. Svo greindu fréttamiðlar í gær frá. Græn erum við – enda kannski hér á ferðinni markaður sem við viljum helst trúa að sé minni en hann er í raun og veru og áhrif hans sömuleiðis.

Ef eiturlyfjaheimurinn er svo stór, er svo víða – þá getur hann harla verið eins einhliða og við kjósum stundum að halda .„Blái liturinn er sýnilegt myrkur“. Ekkert er svart, allt er blátt í sjónvarpsþáttaröðinni Ozark. Við gætum allt eins öll verið karakter Jasons Batemans, Marty Byrde. Þrátt fyrir samfélagslega undiröldu sem segir okkur að lífið sé fasti sem fer línulega upp á við með hækkandi aldri, þá gæti U-beygjan leynst handan við hornið, hvenær sem er, hvar sem er. Lestin mælir með Ozark, og það í formi hámhorfs.