Blái laxinn var úr Elliðaánum

22.07.2014 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Blái laxinn sem veiddist í Elliðaánum í gær var merktur þar sem seiði í fyrra. Líffræðingurinn sem merkti hann hyggst snæða hann í kvöld.

Blái laxinn vakti athygli veiðimanna við ána í sumar og beit loks á agn í gærmorgun. Björn Þrándur Björnsson, prófessor í fiskalífeðlisfræði við Gautaborgarháskóla, segir í samtali við Morgunblaðið að líklegasta skýringin á bláa litnum sé að það vanti í laxinn hormónið MSH sem stjórnar litarfarinu. Þá fái fiskurinn ekki sinn eðlilega lit heldur verður fölblár og það sé kallað kóbalt-afbrigði. Það sé þekkt í regnbogasilungi. 

Jóhannes Sturlaugsson, líffræðingur hjá Laxi ehf, segir að laxinn sé upprunninn í Elliðaánum. „Þessi fallega blái lax var með lögheimili í Elliðaánum fram í andlátið. Ástæðan fyrir að við vitum það er sú að við merkjum árlega seiði sem ganga til hafs úr Elliðaánum og þessi var einn af þeim sem var merktur 2013. Hann var í smærri kantinum sem seiði, þegar hann gekk, rúmlega 11 cm langur og 14 grömm að þyngd. En hann sem sagt lagði upp í lok maí í fyrra.“

Jóhannes segir að eins og laxarnir sem veiðst hafi í ár sé hann í smærri kantinum og það skýrist af erfiðum lífsskilyrðum í hafi þetta árið. 
Hann segist hafa merkt tvær til þrjár milljónir seiða í gegnum tíðina. Þau sem skeri sig svona úr í lit eigi yfirleitt ekki mikla lífsmöguleika. „Þessi sýndi og sannaði að hann hafði allan tímann trú á sjálfum sér og náði að skila sér í Elliðaárnar.“

Laxinn verður ekki rannsakaður frekar. „Ég hafði nú bara hugsað mér að snæða laxinn í kvöld, en það er nú kannski ekki það vísindalegasta í þessu ferli öllu saman.  Að öðru leyti var búið að gera þessu  ágæt skil og gaman að hann skuli vera einn af þessum sem við fylgjumst svona náið með.“