Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Blæðandi malbik skapar slysahættu

04.07.2012 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Blæðandi malbik skapar mikla slysahættu og eyðileggur bíla segir framkvæmdastjóri Austfjarðarleiðar. Fyrirtækið hafi eytt miklum fjárhæðum í að laga og hreinsa rútur sem keyra daglega á malbiki, sem hefur verið blandað með lífolíu.

Víða er lífolíu, eins og repjuolíu, blandað í malbik og segir Hlífar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Austafjarðarleiðar, það valda blæðingum á vegunum svo á þeim myndast þykkir olíu- og tjörupollar. Hann segir að á Austurlandi sé ástandið verst ofan við Eskifjörð en hafi verið viðvarandi víða á svæðinu síðan 2005.

„Þetta hefur þær afleiðingar fyrir bílana að náttúrlega að tjara klessist undir þá. Á stórum bílum fyllir þetta grindurnar og við höfum þurft að höggva allt í upp í tíu sentimetra þykkt lag af malbiki innan úr grindarbitum og síðan er náttúrulega fljúgandi hált í þessari blæðingu og það til dæmis þarf ekki að leggja sig fram að láta rútu spóla á leiðinni upp eða draga hjólin á leiðinni niður með mótorbremsu,“ segir Hlífar.

Gríðarlegur kostnaður

Rútur á vegum fyrirtækisins keyra vegina daglega, tjaran sest á þá og eyðileggur. Kostnaðurinn við að halda þeim hreinum og heilum sé gríðarlegur. Málið hafi margsinnis verið borið upp við Vegagerðina.

„Við erum orðnir þreyttir á þessu núna, það virðist ekkert varanlegt gerast. Þeir mæta bara á svæðið með sandhlöss og strá yfir þetta og það er bara tilfæring á vandanum því að þá er bara ryk og ógeð á vegunum í staðinn og jafnhættulegt eins og til dæmis fyrir mótorhjóli,“ segir Hlífar að lokum.