Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Blaðamenn kolfelldu kjarasamning: „Kemur ekki á óvart“

26.11.2019 - 18:10
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Félagar í Blaðamannafélagi Íslands kolfelldu nýgerðan kjarasamning félagsins við Samtök atvinnulífsins í atkvæðagreiðslu í dag. Rúmlega 70 prósent greiddu atkvæði gegn samningnum eða 105 af þeim 147 sem kusu í dag. Verkfallsaðgerðir hjá blaðamönnum eru því fyrirhugaðar á föstudag.

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, sagði í kvöldfréttum útvarps að þessi niðurstaða kæmi honum ekki á óvart. Blaðamenn væru að senda skýr skilaboð um þeir vildu gera hóflegan kjarasamning. „Ég vona að þetta dugi til þess að fá alvöru viðræður.“

Hjálmar segir að óbreyttu fari blaðamenn í félaginu í verkfall á föstudag og svo aftur á fimmtudag í næstu viku. „Sáttasemjari gaf það út að hann myndi kalla saman fund ef samningurinn yrði felldur,“ segir Hjálmar sem kveðst reikna með að það verði annað hvort á morgun eða fimmtudag.