Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Blaðamenn kjósa um verkföll í næstu viku

21.10.2019 - 17:33
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / Grímur Jón Sigurðsson
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir lítið hafa komið úr samningafundi félagsins hjá Ríkissáttasemjara. Samtök Atvinnulífsins hafi boðið félaginu „minna en ekki neitt.“ Breytist staðan ekki, greiða félagsmenn atkvæði um verkfallsaðgerðir í næstu viku. Stefnt er á skæruverkföll í nóvember.

Samninganefndir Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins komu saman til fundar klukkan tvö í dag. Hjálmar segir að nýr fundur hafi verið boðaður eftir rúma viku en ekkert á fundinum í dag hafi breytt stöðunni. 

„Það kom því miður alltof lítið út úr þessum fundi. Það hefur að vísu verið boðaður fundur aftur eftir rúma viku en það kom ekkert efnislegt fram á þessum fundi sem breytti þeirri stöðu sem uppi er, því miður. “

Félagsmenn greiði atkvæði um verkfallsaðgerðir i næstu viku en miðað er við skæruverkföll í nóvember breytist staðan ekki. Hjálmar segir að viðræðurnar hafi gengið hörmulega hingað til. 

„Það sýnir nú bara og sannar hve hörmulega þetta hefur gengið að það eru sex mánuðir liðnir frá því a iðnaðarmenn gerðu sína samninga og við höfum verið í stöðugum viðræðum síðan og ekkert miðað. Þau bjóða okkur minna en aðrir hafa fengið.“

Kröfur félagsins séu hógværar.  „Við viljum laga það sem er í boði að aðstæðum blaðamanna, þannig að það sem er í boði er komi í launaumslagið hjá fólki. Við erum ekki að horfa á vinnutímastyttingu. Við erum að horfa á það að krónur komi í umslagið,“ segir Hjálmar. 

Hann segir Samtök Atvinnulífsins hafa boðið félaginu lítið sem ekki neitt. Félagið undirbúi nú aðgerði í samvinnu við lögmann. 

„Þetta er í fyrsta skipti í fjörutíu ár sem blaðamenn fara í verkfall. Það var einfaldara í gamla daga. Nú þarf að vera tilkynnt nákvæmlega til hverra verkfallið tekur og hvenær það er. Hér áður fyrr gat samninganefnd boðað verkfall. Það er ekki þannig lengur svo við þurfum að undirbúa þetta vandlega og svo vinna stendur nú yfir. “

Samningarnir ná meðal annars til blaðamanna á Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og fréttamanna Sýnar sem rekur Stöð 2 og Bylgjuna. Upp úr viðræðum Blaðamannafélagsins og Samtaka atvinnulífsins slitnaði fyrir þremur vikum og þá var staðan kynnt fyrir félagsmönnum. Helsta stefnumál Blaðamannafélagsins er að laun blaðamanna verði hækkuð. Laun þeirra hafi dregist verulega aftur úr, segir Hjálmar. Til dæmis fái blaðamaður með háskólamenntun og eins árs starfsreynslu rúmar 400.000 krónur í mánaðarlaun.