Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bjóst ekki við að þurfa að undirbúa lokun Bíó Paradísar

30.01.2020 - 13:29
Bíó Paradís við Hverfisgötu.
 Mynd: RÚV
Bíó Paradís stendur frammi fyrir því að þurfa að borga þrefalt eða fjórfalt hærri leigu í húsnæði sínu við Hverfisgötu til þess að geta haldið starfseminni gangandi. Hrönn Sveinsdóttir framkvæmdastjóri segir engan rekstrargrundvöll vera til þess. Hún er þó ekki búin að leggja árar í bát.

Eins og greint var frá í morgun hefur Bíó Paradís sagt upp öllu starfsfólki og skellir í lás að öllu óbreyttu þann 1. maí. Um er að ræða 30 manns, 25 í hlutastarfi í afgreiðslu og fimm í fullu starfi. Auk þess koma verktakar að einstaka verkefnum. 

Hrönn segir að á þeim tíu árum sem liðin eru síðan Bíó Paradís hóf starfsemi hafi húsnæðið alltaf verið í lamasessi og var þegar komið að þolmörkum. Það hafi verið ljóst strax fyrir fimm árum síðan að leigusalar gætu ekki sætt sig við svona lága leigu til lengdar, sem sé langt undir markaðsvirði. Bíó Paradís hafi notið góðs af því, en Hrönn vill ekki gagnrýna leigusalann fyrir að krefjast leigu í takt við markaðinn.

„Það var öllum ljóst að þessi staða var væntanleg. Ég bjóst ekki við að við þyrftum að undirbúa lokun, en það er ekkert á borðinu til okkar og þá verðum við að gera þessar ráðstafanir. Annað væri óábyrgt, að geta ekki greitt starfsfólki laun og uppsagnarfrest,“ segir Hrönn.

©Nanna Dís
 Mynd: ©Nanna Dís 2013 - www.nannadis.com
Hrönn Sveinsdóttir.

Hvers virði er menningarlega gildið?

Hrönn segir að um 20% af rekstri Bíó Paradísar hafi komið með styrkjum frá ríki og borg. Síðustu fimm ár hafi bíóið sent mörg erindi og haldið fundi með borginni. Aðspurð hvort baráttunni sé lokið segir Hrönn svo ekki vera og hún reyni enn að ræða við ríki og borg. Það þurfi að spyrja sig hvort menningarlegt gildi Bíó Paradísar sé þess virði að berjast fyrir. Í það minnsta væri ekki hægt að reka þetta áfram eins og áður.

Hrönn segir að hún finni fyrir miklum stuðningi í þjóðfélaginu. Fólk hafi greinilega tekið ástfóstri við húsið. Þar hafi unga kynslóðin einnig fengið tækifæri til þess að upplifa stemninguna í kvikmyndahúsum, þar sem markmið er að efla þekkingu og menntun ungs fólks á kvikmyndalistinni. 

Hrönn segir að ef ekki tekst að bjarga rekstrinum í Hverfisgötunni sé ekki á döfinni að opna annars staðar. Það væri of kostnaðarsamt að setja upp kvikmyndahús frá grunni.

„Hluti af því hvað gengur vel er að við erum menningarhús í hringiðu mannlífsins, með tengingu við annað miðsvæðis. Bíó Paradís hefur alltaf verið að gera hið ómögulega og oft komist í hann krappann. En þetta er nú stærsta ljónið á veginum hingað til, ,“ segir Hrönn Sveinsdóttir.