Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Björt: Kusu of snemma um stjórnarslit

02.12.2017 - 09:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kosning innan Bjartrar framtíðar um það hvort ætti að slíta stjórnarsamstarfi síðustu ríkisstjórnar var haldin of snemma, að mati Bjartar Ólafsdóttur, fyrrum umhverfisráðherra og núverandi formanns flokksins. Hún segir í viðtali við Fréttablaðið í dag að betra hefði verið að bíða aðeins. 

Gjá myndaðist, að sögn Bjartar, á milli ráðherra í ríkisstjórninni þegar ljóst var að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra og Bjarni Benediktsson þáverandi forsætisráðherra hefðu vitað um uppáskrift Benedikts Sveinssonar, föður Bjarna um uppreist æru Hjalta Sigurjóns Haukssonar, dæmds kynferðisbrotamanns, vikum saman en ekki upplýst aðra ráðherra í ríkisstjórninni.

Hún segir að svör þáverandi forsætisráðherra og hans fólks við málinu hafi verið óásættanleg, að ekki stæði til að upplýsa almenning strax um málið. Haldinn var fundur hjá Bjartri framtíð að kvöldi til 14. september. Björt segir að mikill hiti hafi verið á fundinum og fólki misboðið. „Ég sagði við mitt fólk að ég vildi mæta á ríkisstjórnarfund og horfa í augun á mínum samráðherrum og segja þeim, augliti til auglits, að ég væri á leiðinni út úr þessu samstarfi. En það er var mikill hiti á þessum fundi. Tilfinningar. Fólki var eðlilega ofboðslega misboðið. Stjórn Bjartrar framtíðar vildi út og ég skildi það bara mjög vel,“ er haft eftir Björtu í Fréttablaðinu. Hún segir að þau hefðu átt að ræða málin betur en að það hefði ekki breytt niðurstöðunni, stjórnarsamstarfinu hefði verið slitið.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir