
Björt framtíð orðin stærri en Samfylkingin
Björt framtíð er orðin stærri en Samfylkingin. Björt framtíð fær 7,7 prósent í könnuninni en Samfylkingin lækkar í 7,1 prósent. Björt framtíð bætir við sig þremur prósentustigum frá síðustu könnun. Eina tölfræðilega marktæka breytingin milli mælinga er fylgisaukning Bjartrar framtíðar.
Um 3,2 prósent myndu kjósa Íslensku þjóðfylkinguna, liðlega 2 prósent Flokk fólksins, tæplega 2 prósent Dögun og tæplega eitt prósent önnur framboð. Tæplega 7 prósent svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag og rúmlega 9 prósent taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp. Stuðningur við ríkisstjórnina eykst lítillega milli mælinga en rúmlega 37 prósent segjast styðja ríkisstjórnina.
Niðurstöðurnar eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 3. til 12. október. Heildarúrtaksstærð var 2.870 og þátttökuhlutfall var ríflega 58 prósent. Hægt er að nálgast allar kannanir sem birtar hafa verið að undanfarið á kosningavef RÚV.
Í kvöld mætast Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, Dögun, Íslenska þjóðfylkingin, Alþýðufylkingin í málefnaþætti RÚV. Til umfjöllunar að þessu sinni eru auðlindir og umhverfismál.