Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Björn Valur hættir sem varaformaður

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Björn Valur Gíslason hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til varaformennsku á komandi landsfundi VG. Björn Valur hefur verið varaformaður flokksins frá árinu 2013 þegar forystuskipti urðu í flokknum. Í færslu á bloggsíðu sinni segir Björn að hann hafi ákveðið að draga sig að mestu í hlé frá pólitískum störfum eftir áratuga afskipti af stjórnmálum. „Þá tel ég mikilvægt að félagar í hreyfingunni hafi kost á að undirbúa framboð til varaformanns með góðum fyrirvara.“

Björn Valur segir færslunni að sterk staða flokksins sé ekki síst að þakka „traustri forystu formannsins Katrínar Jakobsdóttur, öflugri sveit þing- og sveitarstjórnarmanna og sterkri málefnalegri stöðu Vinstri grænna.“

Nýr varaformaður VG verður kosinn á landsfundi flokksins 6. til 8. október en um helgina fer fram flokksráðsfundur Vinstri grænna.„Sveitarstjórnakosningar verða á næsta ári og mun nýr varaformaður gegna mikilvægu hlutverki við undirbúning þeirra.“ 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV