Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Björk tekur rafræna gjaldmiðla í þjónustu sína

epa03167385 Icelander singer Björk performs during the second edition of the International Festival of Alternative Music Lollapalooza in Santiago de Chile, Chile, 31 March 2012. International bands like Artic Monkeys from Great Britain and Foo Fighters
 Mynd: EPA - EFE

Björk tekur rafræna gjaldmiðla í þjónustu sína

07.11.2017 - 08:28

Höfundar

Björk býður fólki að kaupa væntanlega plötu sína, Utopia, í forsölu með rafrænum gjaldmiðlum. Þeir sem nýta sér þennan möguleika fá í kaupbæti 100 svonefndar Audiocoins, eða tónlistarkrónur, sem einnig er rafræn gjaldmynt og hægt er að nýta til að versla tónlist á netinu.

Hægt verður að nota rafræna gjaldmiðla á borð við bitcoin, litecoin og dashcoin til þess að kaupa plötuna. Með uppátækinu vill hún ýta undir notkun rafrænna gjaldmiðla. Það gerir hún ekki síst með því að endurgreiða þeim sem nýta sér möguleikann 100 Audiocoins, en það er um tveggja ára gamall gjaldmiðill sem er ætlaður tónlistariðnaðinum. Virði 100 Audiocoins er um það bil 27 íslenskar krónur. Þessi upphæð fer inn í rafrænt veski kaupenda sem geta svo ýmist nýtt þær til að versla meiri tónlist eða skipta þeim í annan rafrænan gjaldmiðil.

Björk vinnur með fyrirtækinu Blockpool að því að framkvæma þessa hugmynd. Kevin Bacon, framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að þetta sé í fyrsta sinn sem vinsæll tónlistarmaður nýtir sér rafræna gjaldmiðla á þennan hátt. „Það verður spennandi að sjá hvernig fólk sem notar rafræna gjaldmiðla tekur í þetta. Þetta verður einnig góð leið fyrir fólk sem kann ekkert á rafræna gjaldmiðla til þess að nýta þá í fyrsta sinn,“ segir hann.