Hægt verður að nota rafræna gjaldmiðla á borð við bitcoin, litecoin og dashcoin til þess að kaupa plötuna. Með uppátækinu vill hún ýta undir notkun rafrænna gjaldmiðla. Það gerir hún ekki síst með því að endurgreiða þeim sem nýta sér möguleikann 100 Audiocoins, en það er um tveggja ára gamall gjaldmiðill sem er ætlaður tónlistariðnaðinum. Virði 100 Audiocoins er um það bil 27 íslenskar krónur. Þessi upphæð fer inn í rafrænt veski kaupenda sem geta svo ýmist nýtt þær til að versla meiri tónlist eða skipta þeim í annan rafrænan gjaldmiðil.
Björk vinnur með fyrirtækinu Blockpool að því að framkvæma þessa hugmynd. Kevin Bacon, framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að þetta sé í fyrsta sinn sem vinsæll tónlistarmaður nýtir sér rafræna gjaldmiðla á þennan hátt. „Það verður spennandi að sjá hvernig fólk sem notar rafræna gjaldmiðla tekur í þetta. Þetta verður einnig góð leið fyrir fólk sem kann ekkert á rafræna gjaldmiðla til þess að nýta þá í fyrsta sinn,“ segir hann.