Björgunarsveitir á þönum á Suðurlandi í dag

12.07.2019 - 23:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Erilsamt var hjá björgunarsveitum á Suðurlandi í dag, sem sinntu alls fjórum útköllum vegna ferðafólks í vanda. Það fyrsta hjálparbeiðnin barst fyrir hádegi og síðustu björgunaraðgerðinni lauk á tólfta tímanum í kvöld.

Féll niður skriðu

Fyrsta útkallið barst á tólfta tímanum í morgun  þegar björgunarsveitir voru beðnar að hjálpa ferðamanni í sjálfheldu við gönguleið meðfram Hafrafelli við Svínafellsjökul. Hafði maður þar farið út af sjálfri gönguleiðinni og niður nokkurn bratta þar sem hann hrasaði í skriðum og féll nokkra metra, segir í tilkynningu frá Landsbjörg. Sat hann þar fastur á neðstu syllunni, rétt fyrir ofan lónið við jökulinn. Björgunarsveitarfólk úr Öræfum fór á vettvang og þurfti að síga niður til mannsins til að aðstoða hann og koma honum í sjúkrabíl, þar sem hann hafði meiðst á höfði í fallinu.

Kona viðskila við gönguhóp

Síðdegis var svo beðið um aðstoð björgunarsveita þegar erlend göngukona varð viðskila við samferðafólk sitt að Fjallabaki eftir langa göngu og skilaði sér ekki í rútu í Landmannalaugum. Björgunarsveitarfólk á hálendisvakt svipaðist um eftir henni, árangurslaust, en í þann mund sem hefja átti næstu skref leitaraðgerða skilaði konan sér í skála við Álftavatn. Hafði hún villst illa og gengið eina 20 kílómetra af leið. Hún var þreytt og svöng en alls ómeidd.

Slösuð hestakona og tvær strand í miðri á

Konan var rétt komin í skálann þegar næsta kall barst, og þá vegna hestakonu sem slasaðist er hún datt af baki á Króksleið, rétt neðan Þverárbotna. Björgunarsveitarfólk kom fljótlega á vettvang og hlúði að henni þar til sjúkraflutningamenn komu að og fluttu hana til móts við sjúkrabíl með aðstoð björgunarsveita.

Á sama tíma biðu tvær konur aðstoðar björgunarsveitarfólks úr hálendisvaktinni þar sem þær sátu fastar í bíl sínum á eyri í ánni Syðri Ófæru og komust hvergi. Nú á tólfta tímanum voru konurnar á eyrinni komnar heilu og höldnu á þurrt land og hestakonan í sjúkrabílinn og aðgerðum björgunarsveita því farsællega lokið. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi