Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Björgunarmenn unnu þrekvirki á Tröllaskaga

01.06.2016 - 07:44
Mynd með færslu
 Mynd: Björgunarfélag Ísafjarðar
Björgunarsveitir og lögregla björguðu erlendum ferðamönnum, pari, sem lent hafi í sjálfheldu í Nesskriðum við Austanverðan Siglufjörð um miðnætti í gær. Fólkið, 35 ára karl og 31 árs kona, hafði komið gangandi frá Héðinsfirði og var ferðinni heitið til Siglufjarðar.

„Fólkið hafði komið sér í algjöra sjálfheldu þarna. Komst hvorki til hliðar eða upp né niður og var orðið kalt og hrakið,“ segir Sigurbjörn Þorgeirsson, varðstjóri lögreglunnar í Fjallabyggð, var á vettvangi í nótt.

Aðkoma á þessum slóðum er erfið, bratt fjalllendi niður í sjó. Lögregla fékk tilkynninguna um miðnætti og óskuðu eftir aðstoð björgunarsveita frá Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri. „Það hafa verið á milli 30 til 40 manns sem tóku þátt í þessu í það heila. Aðgerðirnar tóku á bilinu fimm til sex tíma,“ segir Sigurbjörn.  

Um hættusama björgunaraðgerð var að ræða en björgunarmenn voru fluttir með bátum að fjallinu og var dróni notaður til að kanna aðstæður og gönguleið. Björgunarmenn komust að fólkinu eftir klifur og línuvinnu eins og segir í tilkynningu lögreglu hér að neðan en um tíma stóð til að kalla út þyrlu vegna erfiðra aðstæðna og aðkomu.

Fyrstu björgunarmenn komust að fólkinu klukkan 2 í nótt og var komið með fólkið að landi á Siglufirði klukkan 5 í nótt. 

Sigurbjörn segir að fólk hafi verið í aðalhlutverki í aðgerðum fólksins. Vel þjálfað björgunarsveitarfólk sem hafi unnið gott starf.

Hér má sjá mynd af Nesskriðum og hér má finna frekar lýsingu á staðarháttum og myndir af svæðinu.

asgeirjo's picture
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV