Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Björg ráðin bæjarstjóri í Grundarfirði

Mynd með færslu
 Mynd: Grundarfjarðarbær
Björg Ágústsdóttir er nýr bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar. Gengið var frá ráðningu hennar á fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar í morgun. Tillaga um ráðningu hennar var samþykkt samhljóða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Grundarfjarðarbæ. Hún hefur störf 9. ágúst.

Björg var bæjarstjóri í Grundarfirði á árunum 1995-2006.  

Í bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar sitja sjö bæjarfulltrúar og þeir koma úr L-lista, Samstöðu - lista fólksins og frá D-lista Sjálfstæðisflokks og óháðra, en sá síðarnefndi fékk meirihluta atkvæða í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum.

Jósef Kjartansson, oddviti D-listans, var á fundinum kjörinn forseti bæjarstjórnar og Hinrik Konráðsson, oddviti L-listans, varaforseti bæjarstjórnar. Rósa Guðmundsdóttir, D-lista verður formaður bæjarráðs og Hinrik af L-lista verður varaformaður bæjarráðs. Kosið er til eins árs í senn.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV