Bjóðast til að hætta við hækkun lífeyrisaldurs

12.01.2020 - 07:44
epa08120415 French Riot Police fall back inside a building during clashes as part as a demonstration against pension reforms in Paris, France, 11 January 2020. Unions representing railway and transport workers and many others in the public sector have called for a 36th days consecutive general strike and demonstration to protest against French government's reform of the pension system.  EPA-EFE/YOAN VALAT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Franska ríkisstjórnin bauðst í gær til að falla frá einu helsta ágreiningsefninu í fyrirhuguðum og afar umdeildum breytingum á lífeyriskerfi landsins, sem er hækkun lágmarkslífeyrisaldurs. Í dag geta Frakkar byrjað að taka lífeyri 62 ára að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þessu hugðist ríkisstjórnin breyta á þann veg, að ekki væri unnt að byrja töku lífeyris fyrr en fólk verður 64 ára.

Í opnu bréfi forsætisráðherrans Edouard Philippe lýsir hann því yfir að ríkisstjórnin sé tilbúin að falla frá þessum áformum, í von um að það greiði fyrir sátt um aðrar breytingar á lífeyriskerfinu.

Segja tilboðið tálmynd

Í yfirlýsingu frá CFDT, einu stærsta stéttarfélagi Frakklands, segir að félagið fagni tilkynningu forsætisráðherrans, enda beri hún vott um vilja til málamiðlana. Tillagan sem slík sé þó lítið annað en reykský, ætlað til að villa um fyrir fólki, og félagið „staðráðið sem aldrei fyrr" í þeirri ætlan sinni að hindra gildistöku nýju lífeyrislöggjafarinnar.

Sama var uppi á teningnum hjá öðru stóru verkalýðsfélagi, CGT, sem lýsti því yfir að það krefjist þess enn sem fyrr, að ríkisstjórnin dragi eftirlaunafrumvarpið til baka í heild sinni.

Víðtæk verkföll lama samgöngur

Víðtækar og afar áhrifamiklar verkfallsaðgerðir margra stórra stéttarfélaga hafa nú staðið í ríflega fimm vikur. Mest eru áhrifin á almenningssamgöngur í landinu, einkum lestarsamgöngur, sem hafa verið meira og minna í lamasessi síðustu vikurnar. Þá hefur ítrekað verið blásið til fjölmennra kröfu- og mótmælaaðgerða vegna hinna boðuðu breytinga á lífeyriskerfinu, sem meðal annars ganga út á að sameina 40 ólíka lífeyrissjóði í einn.

Ríkisstjórnin segir þetta gert til að einfalda kerfið og gera það sanngjarnara. Verkalýðsfélögin segja breytingarnar aftur á móti skerða réttindi og lífskjör félaga sinna.

Fjöldi fólks tók þátt í mótmælum í París og fleiri borgum í gær. Í höfuðborginni sló í brýnu milli mótmælenda og lögreglu, sem beitti táragasi þegar nokkrir úr hópi mótmælenda lögðu eld að ruslatunnum og auglýsingaskiltum.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV