Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bjóðast til að frelsa 700 mótmælendur

21.03.2019 - 06:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Ríkisstjórn Daniels Ortega, forseta Níkaragva, hefur samþykkt að sleppa ríflega 700 mótmælendum úr röðum stjórnarandstæðinga úr haldi gegn því að leiðtogar stjórnarandstöðunnar setjist aftur að samningaborðinu og haldi friðarviðræðum áfram. Luis Angel Rosadilla, sérlegur erindreki Samtaka Ameríkuríkja í málefnum Níkaragva, greindi frá þessu á fréttamannafundi í nótt.

Samkvæmt Rosadilla heita stjórnvöld því að sleppa „öllu því fólki sem handtekið hefur verið í tengslum við  mótmælin" gegn Ortega og stjórn hans, sem hófust í apríl í fyrra. Stjórnmálaástandið í Níkaragva hefur verið í hörðum hnút allar götur síðan Ortega boðaði víðtækar og afar óvinsælar breytingar á almannatryggingakerfi landsins síðasta vor. Fjölmenn og hörð mótmæli brutust þá út víða um land og hávær og viðvarandi krafa um að efnt verði til kosninga hefur verið uppi allar götur síðan.

Stjórnin hefur verið sökuð um að mæta mótmælendum af yfirgengilegri hörku og ofbeldi og minnst 325 hafa látið lífið í blóðugum átökum í tengslum við mótmælin. Krafan um að sleppa handteknum mótmælendum hefur jafnan verið önnur tveggja meginkrafa stjórnarandstæðinga, sem segja fangelsaða félaga sína ekkert annað en pólitíska fanga.

Stjórnvöld hafa til þessa neitað að verða við henni, rétt eins og hinni meginkröfu þeirra, kröfunni um að forsetakosningar verði haldnar í ár, en ekki 2021 eins og til stendur.

Í rannsóknarskýrslu sem unnin var á vegum Sameinuðu þjóðanna og birtist í ágúst í fyrra, segir að stjórnvöld hafi ítrekað gert sig sek um að kúga almenning í landinu og enn frekar pólitíska andstæðinga sína með grófum og skipulögðum hætti. Í skýrslunni er að finna lýsingar á fjölda ólöglegra handtaka, pyntingum og réttarhöldum sem haldin eru fyrir luktum dyrum. Þá vitna fjölmargir læknar, dómarar, háskólakennarar og prófessorar um að hafa verið reknir úr embætti fyrir það eitt að hafa aðstoðað eða stutt mótmælendur. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV